Reynsluboltinn Sigurður Egill Lárusson er genginn í raðir Þróttar Reykjavíkur efir að hafa leikið í rúman áratug með Val. Hann var kynntur rétt fyrir klukkan 18:00 á aðfangadag og er fjórði leikmaðurinn sem Þróttarar sækja í vetur. Það er nokkuð greinilegt að menn í Laugardalnum eru mjög stórhuga eftir að hafa rétt misst af sæti í Bestu deildinni á liðnu tímabili.
Fótbolti.net ræddi við Sigurvin Ólafsson, Venna, sem er þjálfari Þróttar, um Sigurð Egil og ýmislegt annað.
Fótbolti.net ræddi við Sigurvin Ólafsson, Venna, sem er þjálfari Þróttar, um Sigurð Egil og ýmislegt annað.
„Það er kærkomið að fá hann, risastórt nafn og ágætis viðurkenning fyrir Þrótt og okkar lið að hann sýni þessu þennan áhuga og vilji skrifa undir hjá okkur. Svo eru öll fótboltagæðin og reynslan sem hann býr yfir sem er snilld að fá í okkar lið."
„Ég er eins og allir aðrir þjálfarar, ég pissa utan í menn sem ég sé mögulega lausa. Ég er búinn að tala við hann í dálítinn tíma og svo bara vatt þetta upp á sig og endaði svona. Þetta voru símtöl, fundir og þolinmæði," segir Venni.
Margir góðir sölupunktar
Hann var orðaður við félög í Bestu deildinni, félög eins og Stjarnan, Þór og Víkingur sögð hafa haft áhuga á Sigurði. Kom á óvart að hann endaði hjá ykkur?
„Nei, ekkert endilega. Ég er búinn að vera með þennan sölupunkt við marga aðra leikmenn sem hafa spilað í efstu deild. Ég hef reynt að selja þeim að koma til okkar, það eru margir góðir sölupunktar finnst mér; frábær aðstaða, léttleikandi lið og ég held það sé skemmtilegt að spila fyrir okkar lið. Maður býður þeim möguleikann á því að upplifa einhver ævintýri og gleði."
Ef hann verður keyptur, þá verður það bara þannig
Það eru fréttir af því að hann sé með möguleika á því að fara í uppeldisfélagið Víking á ákveðna upphæð ef bakvörður verði seldur frá Íslandsmeisturunum í vetur. Hvað finnst þér um það?
„Ég gerði svo sem ekki samninginn, þannig ég er ekki með öll samningsákvæði fyrir framan mig. Jafnvel þó að ég væri með það, þá væri ég ekki í neinni stöðu til að ræða um hvað menn skrifa undir í samningum."
„Þetta truflar mig ekki neitt, því fyrir utan gríðarlega reynslu og mikil gæði, þá er hann eins og hver annar leikmaður Þróttar. Ef hann spilar ekki með Þrótti í sumar þá þarf einhver að borga fyrir hann; kaupa hann. Kári (Kristjánsson) hefði runnið út á samningi á næsta ári, ég hefði viljað hafa hann, en hann er ekki að fara spila með Þrótti í sumar. Siggi er eins og hver annar leikmaður, ef hann verður keyptur, þá verður það bara þannig."
Kominn ágætis bragur á öll svæðin
Þróttur hefur fengið þá Aron Dag Birnuson, Adam Árna Róbertsson, Tryggva Snæ Geirsson og Sigurð Egil í sínar raðir í vetur. Ertu sáttur við hópinn eins og hann er núna?
„Það er kominn ágætis mynd á þetta. Ég er eins og allir aðrir, ef það er eitthvað sem dúkkar upp og smellpassar (þá skoða ég það). Undirbúningstímabilið er langt, það getur ýmislegt gerst, menn geta meiðst eða menn farið, eins og Kári um daginn. En mér finnst vera kominn ágætis bragur á öll svæðin á vellinum."
Þá hljótum við að fara upp
Er ekki nokkuð augljóst að það er bara eitt markmið hjá Þrótti: Að fara upp úr Lengjudeildinni 2026?
„Ef við gerum aðeins betur en í fyrra þá hljótum við að fara upp, við vorum það nálægt því. Það getur ekki verið annað markmið en að gera betur en árið á undan og það vantaði bara einn sigur í lokin, þá hefðum við farið beint upp. Við vitum það samt að aðrir eru að fara mæta okkur af meiri krafti, þannig við þurfum að bæta okkur töluvert. Ef við spilum eins og í fyrra, þá förum við ekki upp, við þurfum að gera betur."
Farið undir radarinn
Brynjar Gautur Harðarson var valinn besti leikmaður Þróttar á liðnu tímabili. Hann hefur farið aðeins undir radarinn en sérfræðingar um Lengjudeildina hafa talað vel um hann,
„Hann stóð sig það vel í sumar að leikmenn Þróttar völdu hann besta leikmanninn. Hann er þögull leiðtogi, gerir lítið af mistökum og er bara frábær knattspyrnumaður. Hann spilar djúpur á miðjunni og ég skil þannig lagað að lítið hafi verið fjallað um hann, hann er ekki „flashy" týpa, en ef menn myndu setjast niður og fylgjast aðeins með honum þá væri erfitt að finna mikið af mistökum í hans leik. Hann getur samt gert ennþá betur en þetta," segir Venni.
Athugasemdir


