Liverpool býður í Camavinga - Liverpool og Man City berjst um Semenyo - Fulham vill bandarískan sóknarmann
banner
   mán 29. desember 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fagnaði valinu heima á Íslandi - Tekur ár í viðbót í Clemson
Valinn í nýliðavali MLS deildarinnar.
Valinn í nýliðavali MLS deildarinnar.
Mynd: MLS
Lék með KR 2023-2024.
Lék með KR 2023-2024.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Brynjar Benediktsson er annar af stofnendum Soccer & Education.
Brynjar Benediktsson er annar af stofnendum Soccer & Education.
Mynd: Aðsend
Lúkas Magni Magnason var fyrr í þessum mánuði valinn í nýliðavali MLS deildarinnar. Lúkas er leikmaður Clemson háskólans og var valinn númer þrettán af Real Salt Lake.

Lúkas er tvítugur miðvörður sem uppalinn er hjá Breiðabliki en lék síðast með KR tímabilin 2023 og 2024.

Hann ræddi við Fótbolta.net um fimmtudagskvöldið 18. desember og ýmislegt annað.

Fagnaði heima með fjölskyldunni
„Ég var kominn heim til Íslands og var með fjölskyldunni og vinum, að fylgjast með MLS nýliðavalinu í beinni textalýsingu. Það voru nokkur félög sem voru búin að vera í sambandi við mig þannig ég vissi að ég væri á lista hjá mörgum af þeim áður en valið byrjaði en svo veit maður aldrei hvort eða hvenær maður er valinn," segir Lúkas Magni.

„Þegar ég sá svo nafnið mitt við hliðina á Real Salt Lake í þrettánda vali, þá var ég mjög glaður og stoltur og fjölskyldan fagnaði með mér."

„Korteri seinna fékk ég símtal frá RSL þar sem þeir óskuðu mér til hamingju og buðu mig velkominn í klúbbinn."


Fannst mikilvægt að hafa eitthvað eftir ferilinn
Var þetta alltaf markmiðið?

„Þegar ég var að meta möguleikana um hver næstu skref ættu að vera hjá mér þá leist mér best á þá ákvörðun að fara til Bandaríkjanna í nám. Ég hugsaði það vegna þess að fótboltinn getur verið óútreiknanlegur og mér finnst mikilvægt að hafa eitthvað eftir fótboltaferilinn."

„Ég talaði við Brynjar (Benediktsson) og Jonna (Jón Ingason) í Soccer and Education og þeir hjálpuðu mér með það ferli. Það var alltaf markmið hjá mér að komast í nýliðavalið og að fara í atvinnumennskuna. Bjarki Gunnlaugsson (umboðsmaður) hefur líka alltaf verið mér innan handar."


„Ég er núna búinn að vera í Clemson í eitt og hálft ár og það er búið að ganga mjög vel hjá mér, ég gæti ekki verið sáttari með ákvörðunina sem ég tók."

„Aðstaðan er geggjuð hjá Clemson, ég er búinn að spila 21 leik sem hafsent og skorað 4 mörk,"
segir Lúkas en mörkin hafa öll komið eftir hornspyrnur.

Ætlar að taka eitt ár í viðbót í háskólaboltanum
En hvað tekur við núna?

„Ég og RSL höfum tekið sameiginlega ákvörðun um að ég taki eitt ár í Clemson í viðbót því þá get ég klárað námið í fjarnámi samhliða fótboltanum."

„Ég mun fara og æfa með RSL í viku í mars og svo allt næsta sumar. Ég mun svo klára haustönnina með Clemson og flytja til Salt Lake í janúar 2027,"
segir Lúkas Magni.

Real Salt Lake er í Salt Lake City í Utah sem er vestan megin í Bandaríkjunum. Clemson háskólinn er þekktur fyrir að vera með öflugt háskólalið. Skólinn er í Suður-Karólínu sem er á austurströnd Bandaríkjanna.

Lúkas er fjórði Íslendingurinn til að vera valinn í nýliðavalinu. Jökull Elísabetarson varð fyrstur til að vera valinn, var valinn árið 2009 af Chicago Fire í annarri umferð en samdi ekki við félagið. Þorleifur Úlfarsson var valinn af Houston Dynamo í fyrstu umferð 2021 og 2022 var Eyþór Martin Björgólfsson, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Norðmaður, valinn í annarri umferð.
Athugasemdir
banner
banner