Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 01. desember 2022 15:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Rúnar um aðstoðarþjálfarann: Þá væri ég ekki að sækja hann til Noregs
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ole Martin Nesselquist, nýr aðstoðarþjálfari KR.
Ole Martin Nesselquist, nýr aðstoðarþjálfari KR.
Mynd: KR
Orri Sigurjónsson hefur verið orðaður við KR.
Orri Sigurjónsson hefur verið orðaður við KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki síðasta sumar.
KR fagnar marki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og greint var frá á dögunum þá mun ungur Norðmaður að nafni Ole Martin Nesselquist vera aðstoðarþjálfari karlaliðs KR á næstu leiktíð, og næstu þrjú árin.

Nesselquist kemur til Vesturbæjarstórveldisins frá Viking í Noregi þar sem hann var aðstoðarþjálfari. Hann er aðeins 29 ára gamall en hann hefur þó þjálfað í deildarkeppni í Noregi til fjölda ára. Hann var aðalþjálfari Trossvik og kom liðinu upp um deild á sínu fyrsta tímabili þegar hann var aðeins 19 ára gamall.

Hann þjálfaði einnig Moss FK og Strømmen IF áður en hann tók við sem aðstoðarþjálfari hjá Viking Stavanger í norsku úrvalsdeildinni.

„Ég og stjórn knattspyrnudeildar fórum að hugsa hvað við vildum gera, hvaða leið vildum fara. Við ákváðum að leita út fyrir landsteinanna," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við Fótbolta.net.

Fékk ráð frá félögum í Noregi
„Ég fékk félaga mína í Noregi til að gefa mér ráð um mögulega kandídata til að vera mér til aðstoðar; unga og metnaðarfulla stráka sem hefðu reynslu. Ég sagði þeim hvernig týpu ég vildi hafa með mér, hvernig karakter, hvernig leikstíl... Við fengum þá nokkur nöfn á blað sem við skoðuðum betur. Við leituðum víða fyrir til þess að fá athugasemdir um hann og við erum mjög ánægðir."

„Samtalið er búið að vera mjög gott. Hann hefur komið einu sinni til Íslands að hitta okkur. Við erum líka búnir að tala mikið við hann í gegnum Teams og annað. Hann er metnaðarfullur ungur strákur. Hugmyndir hans og mínar passa mjög vel saman. Ég þekki þessi lið sem hann hefur þjálfað og ég veit að hann hefur þurft að hafa mikið fyrir hlutunum hjá þessum liðum sem eru ekki mikið fjármagn."

„Hann var síðast hjá Viking þar sem hann kom síðastur inn í teymið af einhverjum fjórum eða fimm mönnum. Þjálfaranum fannst þeir vera of margir þar og þeir ætluðu að fækka. Þess vegna er hann laus núna og kemur til okkar. Eins og ég segi, þá erum við ánægðir með að hann sé viljugur að koma til okkar."

Þá væri ég ekki að sækja hann til Noregs
Nesselquist fór í viðtal við Moss Avis í Noregi á dögunum þar sem hann ræddi um nýja starfið. Hann sagði þar að hann myndi þjálfa liðið en Rúnar ætti lokaorðið þegar kæmi að ákvörðunum. Rúnar telur að þarna sé ekki alveg haft rétt eftir honum.

„Ég held að það sé ekki alveg rétt haft eftir honum. Ég er aðalþjálfari og ég ræð og stjórna. Maður er með aðstoðarþjálfara sem tekur þátt í því að stjórna æfingum, tekur þátt í því að teikna upp æfingar. Ég er með styrktarþjálfara sem sér um að koma mönnum í form, svo er ég með markvarðarþjálfara sem þjálfar markverðina og tekur þátt í föstum leikatriðum ásamt þjálfurum. Þetta er allt samvinna," segir Rúnar.

„Ég stjórna og er með menn mér til aðstoðar. Það þurfa allir að fá sín hlutverk og hann fær stórt hlutverk hjá mér, engin spurning. Okkar fótbolta hugmyndir liggja nálægt hvor öðrum og við munum reyna að samtvinna þær. Við viljum reyna að bæta í og gera betur fyrir KR."

„Ef ég væri með aðstoðarmann með mér sem væri bara að halda á keilunum þá væri ég ekki að sækja hann til Noregs. Hann mun fá mikið að gera. Það er alls staðar þannig að það eru fleiri en einn sem taka þátt í því að þjálfa lið. En það er bara einn sem ræður og það verður ég."

Nesselquist er með æðstu þjálfaragráðu UEFA, UEFA Pro. Hann mun hefja störf hjá félaginu í janúar.

Á ekki endilega von á því að hann sé á leið í KR
Orri Sigurjónsson hefur verið orðaður við KR eftir að hann yfirgaf herbúðir Þórs á Akureyri. Orri, sem er 28 ára, sagði skilið við Þór á dögunum. Rúnar var spurður út í Orra.

„Orri hefur oft æft með okkur þegar hann er í bænum. Við höfum ekki heyrt í Orra og ég á ekki endilega von á því að hann sé á leið í KR. En maður veit aldrei."

KR-ingar ætla að styrkja lið sitt fyrir komandi leiktíð, það verða einhverjar breytingar. Þetta segir Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar félagsins í samtali við Fótbolta.net.

„Það er alveg ljóst að það verða breytingar og það koma nýir menn inn í hópinn. Það er alveg ljóst, en það er ekki tímabært að segja hverjir það eru. Það er allt í vinnslu og við erum að flýta okkur hægt, við erum að vanda okkur," segir Páll.

KR hafnaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner