Jose Mourinho, þjálfari Roma, var ekkert að spara stóru orðin er hann ræddi við ítalska fjölmiðla eftir 1-1 jafnteflið gegn svissneska liðinu Servette í Evrópudeildinni í kvöld.
Roma fór með eins marks forystu í hálfleik en heimamenn í Servette jöfnuðu í þeim síðari.
Þetta þýðir líklega það að Roma sé á leið í umspil um sæti í 16-liða úrslitum, en Slavía Prag er í efsta sæti riðilsins með 12 stig, tveimur meira en Roma.
Mourinho er afar ósáttur við hugarfar margra leikmanna.
„Það er synd að þið séuð ekki með myndavél í búningsklefanum hjá okkur í hálfleik, því í hvert einasta sinn geri ég þeim ljóst fyrir að andstæðingurinn, sem er á heimavelli og marki undir, mun koma brjálaður út í seinni. Það eru eðlileg viðbrögð og eitthvað sem við eigum að búast við.“
„Enn og aftur var viðhorf okkar yfirborðskennt, það er að segja hvernig við túlkuðum ákveðin augnablik í leiknum. Það eru leikmenn sem misstu af enn einu tækifærinu til að sanna sig, tildæmis Aouar.“
„Það eru margir á bekknum sem koma inn á í Seríu A með frábært viðhorf, en mæta síðan í Evrópudeildina með einhvern slugsahátt, eins og þeir séu ekki vanir því að vera á bekknum og ná ekki einu sinni að bæta leik liðsins.“
„Við erum núna á leið í annað umspil og það verður erfitt gegn liði sem kemur úr Meistaradeildinni. Það verða tveir Evrópuleikir í viðbót, einn á Stadio Olimpico þar sem verður fullt hús og stuðningsmennirnir að sýna okkur ást sína. Ég vil ekki gera drama úr því að fara í umspil.“
„Dramatíkin, ef hún er þá einhver, er yfir því að við vorum með rangt viðhorf frá leikmönnum og þeirra sem komu út í seinni hálfleikinn. Þetta gerist trekk í trekk og ég bara get ekki skilið það. Ég hef þjálfað í 150 Meistaradeildarleikjum, sem eru miklu erfiðara, en samt virðist það vera svo að leikmenn, sem eiga sér ekki einu sinni mikla sögu í Evrópu, leggi lágsmarksvinnu í leikina.“
Mourinho hrósaði tveimur leikmönnum, sem gáfu allt sitt í leikinn, en það voru þeir Bryan Cristante og Leandro Paredes.
„Það eru leikmenn sem gefa allt sitt í 90 mínútur og svo þeir sem eru of góðir fyrir þessa keppni. Því miður eigum við bara einn Cristante. Hann setur frábært fordæmi fyrir aðra og einbeitingin alltaf upp á tíu hjá honum. Mér fannst Paredes halda vel í boltann og hann er heimsmeistari. Hann er með rétta viðhorfið.“
„Það er fólk sem líður bara þægilega með þessa yfirborðskenndu nálgun og við þurfum að borga fyrir það.“
Verður þeim leikmönnum refsað fyrir framlagið?
„Það verður engum refsað fyrir það. Guardiola getur gert það, ef hann er ekki ánægður með einn þá segir hann bara bless, hendir honum út og velur annan. Ég get ekki gert það hér. Eina sem ég get gert er að hamra þessu í hausinn á þeim á hverjum degi til að ná því besta úr hópnum,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir