Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
banner
   þri 30. desember 2025 22:35
Ívan Guðjón Baldursson
Iraola ósáttur með vítadóminn: Erum óheppnir
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Andoni Iraola þjálfari Bournemouth svaraði spurningum eftir 2-2 jafntefli gegn Chelsea á Stamford Bridge.

Bournemouth skapaði urmul færa í fyrri hálfleik en nýtti þau illa. Þess í stað skoruðu leikmenn liðsins eftir tvö löng innköst, en Chelsea tókst einnig að gera tvö mörk svo staðan var jöfn í leikhlé.

Chelsea stjórnaði gangi mála í síðari hálfleiknum en tókst ekki að gera sigurmark.

„Fyrir leik hefðum við verið sáttir með eitt stig en við hefðum getað unnið þennan leik. Við áttum að skora meira í fyrri hálfleik, við vorum frábærir og það var ekki sanngjarnt að fara inn í leikhléð með stöðuna jafna í 2-2," sagði Iraola.

„Við fengum ekki mikið af færum í seinni hálfleik og þurftum að verjast lægra á vellinum en við gerðum það mjög vel. Við fengum bestu færi kvöldsins, við vorum betra liðið í fyrri hálfleik og vörðumst mjög vel í síðari hálfleik.

„Við erum að gera frábæra hluti gegn stórliðum eins og Chelsea og Manchester United en okkur tekst ekki að sigra. "


Chelsea skoraði úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir að Antoine Semenyo braut klaufalega á Estevao Willian, en Iraola var ekki ánægður með dóminn.

„Okei, það er lítil snerting en dómarinn flautaði ekki. Ég hefði getað samþykkt þetta ef dómarinn hefði flautað, en mér finnst þetta alltof lítið til að VAR skerist í leikinn. Ég skil stundum ekki hvers vegna þeir þurfa að blanda sér í þessar ákvarðanir þegar það eru ekki skýr og augljós mistök. Við vorum óheppnir.

„Við erum búnir að gera fjögur jafntefli í síðustu fimm leikjum. Við þurfum fleiri stig en það er jákvætt hvað við höfum verið samkeppnishæfir gegn sterkum andstæðingum. Við verðum að halda áfram að spila svona vel því þetta mun ekki verða auðveldara fyrir okkur. "


Iraola var að lokum spurður hvort þetta hafi verið síðasti leikur Semenyo fyrir Bournemouth, en kantmaðurinn virðist vera á leið til Manchester City í janúarglugganum. Bournemouth mætir toppliði Arsenal um næstu helgi.

„Nei, þetta er ekki síðasti leikurinn hans. Hann mun spila um helgina."

Bournemouth er 23 stig eftir 19 umferðir.
Athugasemdir
banner