Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
   þri 30. desember 2025 22:12
Ívan Guðjón Baldursson
England: Arsenal með skýr skilaboð - Jafnt á Trafford
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í ensku úrvalsdeildinni þar sem topplið Arsenal sendi skýr skilaboð með stórsigri gegn Aston Villa.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn á Emirates þar sem heimamenn í Arsenal voru sterkari aðilinn í nokkuð tíðindalitlum fyrri hálfleik. Bæði lið fengu hálffæri til að skora en staðan var 0-0 í leikhlé.

Seinni hálfleikurinn var hins vegar rosalegur hjá heimamönnum þar sem þeir nýttu nánast öll færin sem buðust til að valta yfir andstæðinga sína. Brasilíski miðvörðurinn Gabriel Magalhaes kom aftur inn í byrjunarliðið eftir meiðsli og skoraði eftir hornspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Gabriel fór svo meiddur af velli seinna í leiknum.

Fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Martín Zubimendi forystuna eftir að hafa sloppið í gegn. Martin Ödegaard fyrirliði átti heiðurinn af þessu marki þar sem hann vann boltann hátt uppi á vellinum áður en hann þræddi Zubimendi í gegn.

Leandro Trossard setti svo þriðja markið á 69. mínútu með frábæru skoti við vítateigslínuna, áður en Gabriel Jesus gerði fjórða og síðasta mark leiksins eftir að hafa komið inn af bekknum. Jesus kláraði með laglegu skoti og reif sig úr treyjunni enda mjög glaður með fyrsta markið sitt síðan um síðustu áramót en hann sleit krossband í janúar.

Átta mínútum var bætt við og bauð uppbótartíminn upp á mikið fjör þar sem bæði lið fengu dauðafæri. David Raya varði meistaralega skömmu áður en Ollie Watkins kom boltanum í netið á 94. mínútu og vildu leikmenn Arsenal svo fá vítaspyrnu fyrir hendi eftir það, en fengu ekki.

Lokatölur 4-1 fyrir Arsenal sem er núna með 45 stig eftir 19 umferðir, fimm stigum meira heldur en Manchester City sem situr í öðru sæti og á leik til góða.

Aston Villa er í þriðja sæti, sex stigum á eftir Arsenal. Liðið hafði unnið 11 leiki í röð í öllum keppnum fyrir skellinn í dag og jafnaði þannig 111 ára gamalt félagsmet.

Manchester United tók á móti botnliði Wolves í hinum leik kvöldsins og tók forystuna í mjög jöfnum fyrri hálfleik. Joshua Zirkzee fær fyrsta mark leiksins skráð á sig eftir að marktilraun hans breytti um stefnu af varnarmanni áður en boltinn lak í netið eftir frábæran undirbúning frá miðverðinum unga Ayden Heaven sem óð upp völlinn með boltann.

Ladislav Krejci jafnaði með skalla eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks svo staðan var 1-1 í leikhlé.

Rauðu djöflarnir héldu boltanum mjög vel í seinni hálfleik en þeim tókst ekki skapa sér mikið. Þeir spiluðu boltanum hægt á milli sín og voru Úlfarnir hættulegri í sínum sjaldgæfu sóknaraðgerðum.

Hvorugu liði tókst að bæta marki við leikinn svo lokatölur urðu 1-1 og er þriðja stig Wolves á tímabilinu staðreynd. Úlfarnir þurfa að fara að næla sér í sigur ef þeir ætla ekki að halda áfram að bæta minnst eftirsóttu metin í sögu enska boltans með hörmulegu gengi sínu.

Man Utd er í sjötta sæti með 30 stig eftir 19 umferðir. Úlfarnir eru sem fyrr segir aðeins með 3 stig.

Arsenal 4 - 1 Aston Villa
1-0 Gabriel Magalhaes ('48 )
2-0 Martin Zubimendi ('52 )
3-0 Leandro Trossard ('69 )
4-0 Gabriel Jesus ('78 )
4-1 Ollie Watkins ('94)

Manchester Utd 1 - 1 Wolves
1-0 Joshua Zirkzee ('27 )
1-1 Ladislav Krejci ('45 )
Athugasemdir
banner