Daniel Farke þjálfari Leeds United var kátur eftir markalaust jafntefli á útivelli gegn Englandsmeisturum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leeds varðist mjög vel og þjáðist stærsta hluta leiksins en Liverpool fann ekki greiða leið í gegn og átti erfitt með að skapa sér færi. Heimamenn fengu nokkur þokkaleg færi á Anfield en Lucas Perri varði vel þegar hans menn þurftu á honum að halda.
„Það er ekki oft sem maður heldur hreinu á Anfield og nær í stig. Við þurftum að verjast og þjást en við erum nýkomnir upp í þessa deild og við vorum að heimsækja ríkjandi meistara. Það er alltaf góð stemning á nýársdag og við stóðum okkur vel. Strákarnir vörðust vel og fengu ekki dauðafæri á sig. Það er mikilvægt að verjast vel og halda hreinu," sagði Farke eftir lokaflautið, en hann var spurður út í bekkjarsetu Dominic Calvert-Lewin sem hafði skorað sjö mörk í sex leikjum fyrir ferðalagið til Anfield.
„Stundum þarf skynsemin að vera í fyrirrúmi. Það er mikið leikjaálag, við spiluðum fjóra úrvalsdeildarleiki á tíu dögum og ég verð að treysta öðrum leikmönnum. Það er ekkert leyndarmál að Dominic hefur verið að glíma við meiðslavandræði á síðustu árum. Við viljum ekki missa hann í meiðsli og ég verð að sýna restinni af hópnum að ég ber traust til þeirra."
Leeds lauk leik klukkan 22:00 í kvöld og mætir Manchester United í hádegisleiknum á sunnudag, rúmum 60 klukkustundum eftir leikinn gegn Liverpool.
„Þetta verður erfitt útaf því að við spiluðum seint í kvöld og eigum næst leik snemma á sunnudag. Við verðum án Ethan Ampadu og þurfum að finna lausnir, ég skil ekki af hverju hann fékk gult spjald í þessum leik. Núna þurfum við að hvíla okkur næstu tvo daga til að vera við góða heilsu um helgina.
„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Liverpool átti eitthvað af marktilraunum en þeir sköpuðu ekkert dauðafæri. Strákarnir sýndu frábært hugarfár og mikla baráttu."
Leeds er með 21 stig eftir 19 umferðir, sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Athugasemdir



