Brasilíska goðsögnin Neymar verður áfram hjá Santos en samningur leikmannsins við félagið átti að renna út um áramótin.
Neymar er búinn að ná munnlegu samkomulagi við Santos um eins árs samning. Hann tekur þessa ákvörðun þrátt fyrir mikinn áhuga félagsliða úr brasilíska boltanum og víðar sem vilja krækja í Neymar.
Neymar er 33 ára gamall og kom með beinum hætti að 15 mörkum í 30 leikjum með Santos á síðustu leiktíð þrátt fyrir tíð meiðslavandræði.
Hann virðist elska að spila fyrir Santos enda er það uppeldisfélagið hans. Í sögulegu samhengi er Santos á slæmum stað í brasilíska boltanum um þessar mundir en Neymar átti lykilþátt í að bjarga félaginu frá falli úr efstu deild á nýliðnu tímabili.
Santos lék í næstefstu deild tímabilið sem fór fram 2024 og komst aftur upp í deild þeirra bestu.
Athugasemdir


