Oscar Bobb, Marc Guehi, Sandro Tonali, Federico Chiesa og fleiri koma við sögu
banner
   fim 01. janúar 2026 10:45
Ívan Guðjón Baldursson
Ítölsk félög berjast um varnarmann Tottenham
Mynd: Fabrizio Romano/X
Mynd: EPA
Fjölmiðlar á Englandi og Ítalíu eru sammála um að varnarmaðurinn Radu Dragusin sé að öllum líkindum á leið aftur í ítalska boltann eftir misheppnaða dvöl hjá Tottenham.

Dragusin er 23 ára Rúmeni sem hefur fengið afar lítinn spiltíma frá komu sinni til Tottenham.

Enska úrvalsdeildarfélagið borgaði rúmlega 25 milljónir evra til að festa kaup á Dragusin sem gerir hann að dýrasta rúmenska leikmanni sögunnar. Áður voru Cristian Chivu og Adrian Mutu dýrustu leikmenn í sögu þjóðarinnar eftir félagaskiptin þeirra til AS Roma og Chelsea sumarið 2003.

Dragusin hefur verið að glíma við meiðsli á fyrri hluta tímabils og er aðeins búinn að koma við sögu í einum leik undir stjórn Thomas Frank.

Juventus, Roma, Milan, Inter og Napoli, fimm stærstu félagslið Ítalíu, eru sögð vera áhugasöm um að fá Dragusin í sínar raðir ásamt enskum úrvalsdeildarfélögum á borð við Crystal Palace og Nottingham Forest.

Óljóst er hvort Dragusin vilji vera áfram á Englandi eða snúa aftur í ítalska boltann þar sem honum leið vel, en hann var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Genoa áður en hann var keyptur í enska boltann.

Dragusin, sem á 27 landsleiki að baki fyrir Rúmeníu, er samningsbundinn Tottenham í fjögur og hálft ár til viðbótar. Hingað til hefur hann aðeins tekið þátt í 38 leikjum á tveimur árum hjá félaginu.
Athugasemdir
banner