Arne Slot talaði mikið eftir markalaust jafntefli Liverpool gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag og kvartaði undan dómgæslunni.
Hann vildi fá dæmda vítaspyrnu og rautt spjald í fyrri hálfleik eftir samskipti Jaka Bijol við Hugo Ekitike en ekkert var dæmt. Slot segir að það komi sér ekkert á óvart, svona sé þetta búið að vera allt tímabilið.
01.01.2026 20:58
Arne Slot: Þetta er líklega vítaspyrna og rautt spjald
„Það var augljóst atvik í fyrri hálfleik þar sem við hefðum getað fengið dæmda vítaspyrnu en leikmaðurinn okkar henti sér ekki í jörðina. Ég get alveg skilið þá ákvörðun útaf því að í hvert einasta skipti sem við fellum til jarðar þá fáum við hvort sem er ekki dæmda vítaspyrnu," sagði Slot.
„Þetta eru mikilvæg atvik sem geta skilað mörkum og stigum. Ég sé önnur lið henda sér niður við minnstu snertingu en við gerum það ekki. Þegar við förum niður innan vítateigs þá er það útaf því að það er búið að brjóta á okkur, en við fáum samt aldrei dæmda vítaspyrnu. Við höfum talað um þetta á æfingum og þetta er liðið sem við viljum vera."
Slot benti einnig á leik Liverpool gegn fallbaráttuliði West Ham á dögunum þar sem Lucas Paquetá lét reka sig af velli með tvö gul spjöld.
„Hann átti að vera löngu farinn af velli áður en hann fékk seinna spjaldið. Hann braut af sér en leikmaðurinn minn stóð í lappirnar svo dómarinn gaf ekki spjald. Svo þegar hann lét reka sig útaf fyrir mótmæli þá reyndi leikmaðurinn minn (Alisson Becker) að stoppa hann. Alisson vildi ekki sjá landsliðsfélaga sinn fá seinna gula, sem hann fékk þó að lokum.
„Ef þið rýnið í tímabilið þá getið þið fundið mörg atvik þar sem brotið er á okkur innan vítateigs en ekkert er dæmt. Við ætlum samt ekki að byrja að láta okkur detta, við erum ekki þannig lið."
Slot gerði þrjár breytingar á byrjunarliði Liverpool frá 2-1 sigri gegn Wolves í síðustu umferð. Meiðslavandræði eru að hrjá liðið og var Slot með þrjá táninga úr varaliðinu á bekknum.
„Ég er ekki viss hvort við munum gera breytingar á byrjunarliðinu fyrir næsta leik. Við vorum með fjóra leikmenn sem eru 19 ára eða yngri á bekknum og þeir eru með litla sem enga reynslu í úrvalsdeildinni. Þetta er ástand sem við þurfum að samþykkja og vinna með."
Liverpool er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 33 stig eftir 19 umferðir. Liðið er búið að fá eina vítaspyrnu sér í hag á fyrri hluta tímabils eftir að hafa fengið níu vítaspyrnur á síðustu leiktíð.
Athugasemdir




