Stórveldið Arsenal trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar yfir jólatímann eftir frábæran fyrri hluta tímabils.
Manchester City er þó að anda ofan í hálsmálið á Arsenal og kemur Aston Villa skammt á eftir.
Bjartsýnustu stuðningsmenn Arsenal trúa því að þeirra tími sé loksins kominn eftir rúmlega 20 ára bið eftir Englandsmeistaratitli.
Arsenal vann síðast deildina tímabilið 2003-04 þegar lærlingar Arséne Wenger fóru taplausir í gegnum heilt úrvalsdeildartímabil í fyrsta og eina sinn í sögu keppninnar.
Núna er staðan þó önnur og sagan er ekki með Arsenal í liði. Þetta er í fimmta sinn frá stofnun úrvalsdeildarinnar sem Arsenal er í toppsætinu yfir jólatímann, en aldrei hefur félaginu tekist að vinna deildina þegar það gerist. Félagið hefur þrisvar sinnum unnið úrvalsdeildina en aldrei eftir að hafa verið á toppinum um jólin.
Arsenal er komið með gríðarlega mikla reynslu í því að enda í öðru sæti úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir


