Liverpool vill Guehi næsta sumar frekar en að gera janúartilboð - Man Utd dreymir um að fá McTominay aftur - Everton hefur áhuga á leikmönnum Man Utd
   þri 30. desember 2025 21:37
Ívan Guðjón Baldursson
England: Fjórtán mörk í fjórum leikjum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fyrstu fjórum leikjum kvöldsins er lokið í ensku úrvalsdeildinni þar sem Chelsea og Bournemouth skildu jöfn eftir gífurlega fjörugan fyrri hálfleik á Stamford Bridge.

David Brooks tók forystuna fyrir gestina frá Bournemouth eftir langt innkast snemma leiks en heimamenn snéru stöðunni við á átta mínútna kafla. Cole Palmer skoraði fyrst úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot Antoine Semenyo á Estevao innan vítateigs, áður en Enzo Fernández tvöfaldaði forystuna með frábæru skoti við vítateigslínuna.

Justin Kluivert jafnaði metin fyrir Bournemouth eftir annað langt innkast og var staðan jöfn 2-2 eftir ótrúlega skemmtilegan fyrri hálfleik. Gestirnir í liði Bournemouth voru óheppnir að skora ekki fleiri mörk eftir að hafa skapað sér aragrúa af góðum færum í fyrri hálfleiknum.

Enzo Maresca gerði tvöfalda breytingu á liði Chelsea í hálfleik og tóku heimamenn algjöra stjórn á leiknum. Bournemouth sá ekki til sólar en varðist vel svo Chelsea tókst ekki að skapa sér mikið. Heimamenn reyndu að gera sigurmark á lokakaflanum en tókst ekki þrátt fyrir fínar tilraunir, svo lokatölur urðu 2-2.

Chelsea er í fimmta sæti með 30 stig eftir 19 umferðir, tveimur stigum á eftir Englandsmeisturum Liverpool sem sitja í síðasta meistaradeildarsætinu.

Everton lagði Nottingham Forest að velli á sama tíma þar sem James Garner skoraði og lagði upp í tveggja marka sigri. Heimamenn í Nottingham fengu mikið af færum í síðari hálfleik en tókst ekki að skora framhjá Jordan Pickford, svo lokatölur urðu 0-2.

Þetta er þriðji tapleikurinn í röð hjá Forest sem er fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. Everton er í efri hlutanum með 28 stig eftir 19 umferðir.

Á sama tíma fór fram viðureign West Ham United gegn Brighton þar sem dæmdar voru þrjár vítaspyrnur í fyrri hálfleik. Jarrod Bowen tók forystuna fyrir West Ham áður en Danny Welbeck steig tvisvar sinnum á vítapunktinn fyrir gestina frá Brighton.

Welbeck skoraði örugglega í fyrra skiptið en í seinna skiptið tók hann svokallaða Panenka spyrnu, sem endaði þó í slánni. Welbeck hitti svo ekki boltann í frákastinu og lenti saman við varnarmenn og markvörð West Ham útaf meintri vanvirðingu sem hann sýndi með vítaspyrnutækninni sem hann kaus að nota.

Lucas Paquetá, sem lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Bowen og braut svo af sér innan vítateigs til að gefa Brighton vítaspyrnu, steig á vítapunktinn í uppbótartíma fyrri hálfleiks til að taka forystuna fyrir West Ham, sem leiddi 2-1 í hálfleik.

Leikurinn á London Stadium var jafn og tókst Joel Veltman að setja boltann í netið í síðari hálfleik til að jafna metin fyrir Brighton. Lokatölur urðu 2-2 og er þetta dýrmætt stig fyrir West Ham sem er í fallsæti með 14 stig eftir 19 umferðir. Brighton er með 25 stig eftir sex leiki í röð án sigurs.

Að lokum hafði Newcastle betur gegn nýliðum Burnley. Yoane Wissa fékk fyrsta tækifærið sitt með byrjunarliði Newcastle í ensku úrvalsdeildinni frá félagaskiptum sínum í haust og endurlaunaði hann traustið með marki eftir sjö mínútur. Það var þó ekki fyrsta mark leiksins því Joelinton hafði skorað fimm mínútum fyrr.

Newcastle var sterkari aðilinn í upphafi leiks en Burnley vann sig inn í leikinn og náði að minnka muninn. Staðan var 1-2 í leikhlé og var allt í járnum í seinni hálfleiknum.

Hvorugu liði tókst þó að bæta marki við leikinn þar til í uppbótartíma þegar misskilningur á milli varnarmanns og markmanns Burnley varð til þess að Bruno Guimaraes skoraði í opið mark af um 25 metra færi. Lokatölur 1-3.

Burnley er áfram í fallsæti á meðan Newcastle er fjórum stigum frá Evrópusæti, með 26 stig eftir 19 umferðir.

Chelsea 2 - 2 Bournemouth
0-1 David Brooks ('6 )
1-1 Cole Palmer ('15 , víti)
2-1 Enzo Fernandez ('23 )
2-2 Justin Kluivert ('27 )

Nott. Forest 0 - 2 Everton
0-1 James Garner ('19 )
0-2 Thierno Barry ('79 )

West Ham 2 - 2 Brighton
1-0 Jarrod Bowen ('10 )
1-1 Danny Welbeck ('32 , víti)
1-1 Danny Welbeck ('36 , Misnotað víti)
2-1 Lucas Paqueta ('45 , víti)
2-2 Joel Veltman ('61 )

Burnley 1 - 3 Newcastle
0-1 Joelinton ('2 )
0-2 Yoane Wissa ('7 )
1-2 Josh Laurent ('23 )
1-3 Bruno Guimaraes ('93)
Athugasemdir