Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
banner
   fös 02. janúar 2026 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sérstök stund að snúa aftur til Brentford
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Danski þjálfarinn Thomas Frank snéri aftur á hliðarlínuna í Brentford í fyrsta sinn síðan hann yfirgaf félagið síðasta sumar til að taka við nágrönnunum í Tottenham.

Tottenham heimsótti Brentford í gærkvöldi og úr varð jafn leikur sem lauk með markalausu jafntefli. Aðeins eitt stig skilur liðin að um miðja úrvalsdeild, þar sem Brentford er fyrir ofan Tottenham þegar tímabilið er hálfnað.

„Þetta var mjög sérstök og ánægjuleg stund að koma aftur hingað en um leið og dómarinn flautaði leikinn á var ég ekki einbeittur að neinu öðru en að reyna að sigra. Við sköpuðum ekki nóg af færum en ég er ánægður með varnarleikinn, við gáfum ekki mörg færi á okkur. Við gerðum samt alltof mikið af mistökum með boltann," sagði Frank við fréttamenn eftir lokaflautið.

„Við vörðumst mjög vel en vorum ekki nægilega góðir í sóknarleiknum. Við vorum líka að spila gegn sterkum andstæðingum sem hafa meðal annars unnið heimaleiki gegn Liverpool, Man Utd, Newcastle og Aston Villa á fyrri hluta tímabils."

Brentford er með 2,1 stig að meðaltali á leik á heimavelli það sem af er tímabils en aðeins 0,67 stig á leik á útivelli.

Þessu er öfugsnúið hjá Tottenham þar sem lærlingar Frank eru aðeins að fá um 0,89 stig á leik á heimavelli en þeir eru meðal allra bestu liða úrvalsdeildarinnar á útivelli - með 1,8 stig á leik.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í. Við verðum að gera betur á heimavelli."

Frank var meðal annars spurður út í tæklingu fyrirliða síns Cristian Romero á Igor Thiago, framherja Brentford, snemma í fyrri hálfleik. Brentford vildi sjá Andy Madley dómara dæma aukaspyrnu og rautt spjald fyrir brot sem aftasti maður, en Madley lét leikinn fljóta áfram.

„Mér fannst þetta vera 50/50 með tæklinguna hjá Romero alveg eins og þetta var 50/50 þegar Archie Gray var felldur skömmu síðar. Í bæði skiptin eru þetta atvik sem VAR-herbergið myndi ekki snúa ákvörðun dómarans við ef hann dæmir brot í rauntíma."

Daninn var að lokum spurður út í áform Tottenham á leikmannamarkaðinum í janúar og viðurkenndi um leið að Brennan Johnson er að ganga frá félagaskiptum til Crystal Palace.

„Við ætlum að gera okkar besta til að styrkja leikmannahópinn í janúar."

   01.01.2026 23:14
Myndband: Brentford vildi rautt spjald og Tottenham vítaspyrnu

Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 19 14 3 2 37 12 +25 45
2 Man City 18 13 1 4 43 17 +26 40
3 Aston Villa 19 12 3 4 30 23 +7 39
4 Liverpool 18 10 2 6 30 26 +4 32
5 Chelsea 19 8 6 5 32 21 +11 30
6 Man Utd 19 8 6 5 33 29 +4 30
7 Sunderland 18 7 7 4 20 18 +2 28
8 Everton 19 8 4 7 20 20 0 28
9 Brentford 18 8 2 8 28 26 +2 26
10 Newcastle 19 7 5 7 26 24 +2 26
11 Crystal Palace 18 7 5 6 21 20 +1 26
12 Fulham 18 8 2 8 25 26 -1 26
13 Tottenham 18 7 4 7 27 23 +4 25
14 Brighton 19 6 7 6 28 27 +1 25
15 Bournemouth 19 5 8 6 29 35 -6 23
16 Leeds 18 5 5 8 25 32 -7 20
17 Nott. Forest 19 5 3 11 18 30 -12 18
18 West Ham 19 3 5 11 21 38 -17 14
19 Burnley 19 3 3 13 20 37 -17 12
20 Wolves 19 0 3 16 11 40 -29 3
Athugasemdir
banner
banner
banner