Ásgeir Sigurvinsson er meðal fjórtán einstaklinga sem voru sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum í dag, nýársdag.
Fálkaorðan er heiðursviðurkenning sem íslenskir ríkisborgarar geta hlotið tvisvar á ári, á nýársdag og þjóðhátíðardag.
Ásgeir er 70 ára gamall og talinn til allra bestu fótboltamanna í Íslandssögunni. Á árunum 1973 til 1990 lék hann með Standard Liége í Belgíu og stórveldunum FC Bayern og VfB Stuttgart í Þýskalandi.
Hann vann belgíska bikarinn með Standard Liége og þýska bikarinn með Bayern, áður en hann hampaði Þýskalandsmeistaratitlinum með Stuttgart. Þá var hann tvisvar sinnum valinn í draumalið tímabilsins í efstu deild í Þýskalandi af miðlinum Kicker.
Ásgeir ólst upp í Vestmannaeyjum og lék með ÍBV áður en hann flutti á meginlandið. Hann lék 45 leiki fyrir íslenska landsliðið og þjálfaði svo landsliðið frá 2003 til 2005.
Ásgeir hefur unnið til ótal einstaklingsverðlauna á Íslandi og er vel að þessum heiðri kominn.
Hann hlýtur fálkaorðuna fyrir afreksárangur í fótbolta.
Athugasemdir


