Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
banner
   fös 02. janúar 2026 11:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fluttu norður eftir erfitt ár hjá fjölskyldunni
'Þetta er eitthvað sem ég þarf að vinna úr'
'Þetta er eitthvað sem ég þarf að vinna úr'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Stefna Þórs um að spila uppöldum leikmönnum og vera óhræddir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri höfðaði mjög til mín'
'Stefna Þórs um að spila uppöldum leikmönnum og vera óhræddir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri höfðaði mjög til mín'
Mynd: Þór
'Það var líklega erfiðast að segja honum að ég ætlaði í Þór'
'Það var líklega erfiðast að segja honum að ég ætlaði í Þór'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við Siggi eigum mjög gott vinasamband sem hófst árið 2013' - Sætinu í Bestu deildinni fagnað.
'Við Siggi eigum mjög gott vinasamband sem hófst árið 2013' - Sætinu í Bestu deildinni fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Benedikt Eiríksson var í lok október tilkynntur sem nýr aðstoðarþjálfari Þórs. Þórsarar voru þá búnir að tryggja sér sæti í Bestu deildinni á komandi tímabili. Eiður kemur til Þórs frá Breiðabliki þar sem hann hafði starfað undanfarin ár og varð Íslandsmeistari með liðinu 2024. Hjá Þór mun Eiður aðstoða Sigurð Heiðar Höskuldsson.

Fótbolti.net ræddi við Eið um flutningana norður.

Hvernig hafa fyrstu vikurnar í Þór verið?

„Fyrstu vikurnar hafa verið mjög skemmtilegar og ég hef nýtt tímann vel til að kynnast félaginu. Fólkið í kringum Þór hefur tekið mér ótrúlega vel og það hefur hjálpað mikið. Það hitti þannig á að Siggi fór til Gambíu að skoða leikmenn viku eftir að ég kom, sem gaf mér gott tækifæri til að kynnast leikmannahópnum vel. Þar var Arnar Geir (yfirþjálfari Þórs) ómetanlegur í að hjálpa mér að átta mig á hlutunum og tengjast félaginu.," segir Eiður.

Vildu komast í rólegra umhverfi eftir erfitt ár
En hvernig kom til að hann fór í Þór frá Breiðabliki?

„Eftir erfitt ár hjá fjölskyldunni minni vorum við konan mín sammála um að við vildum vera nær fjölskyldunni hennar og komast í rólegra umhverfi. Konan mín er í endurhæfingu eftir krabbameinsmeðferð og ég sjálfur var að vinna úr ákveðnum kaflaskilum í mínu lífi."

„Móðir mín lést tveimur dögum fyrir fyrsta leik tímabilsins. Veikindi hennar höfðu haft mikil áhrif á mig í gegnum bæði unglings- og fullorðinsárin og þetta er eitthvað sem ég þarf að vinna úr."

„Við tókum ákvörðun um að flytja í júní og fjölskyldan flutti til Akureyrar í lok ágúst. Ég bjó áfram í Reykjavík til að klára tímabilið, en fjölskyldan mín var þá þegar komin norður."


Erfiðast að segja Hadda að hann ætlaði í Þór
Áður en Eiður fór að starfa hjá Breiðabliki hafði hann verið í þjálfarateymi Hallgríms Jónassonar hjá KA. Var ekkert skrítið að fara í Þór eftir að hafa verið hjá KA?

„Nei, í raun ekki. Þegar ég var hér síðast tengdi ég alltaf meira við Þór en KA. Stefna Þórs um að spila uppöldum leikmönnum og vera óhræddir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri höfðaði mjög til mín. Það setur kröfur á þjálfarann að gera leikmenn tilbúna, vinna markvisst með þeim og hjálpa þeim að taka næstu skref."

„Tíminn hjá KA var góður, ég þjálfaði frábæra leikmenn bæði í meistaraflokki og yngri flokkum og kynntist þar mjög góðu fólki. Ég og Haddi höfum haldið góðu sambandi síðan, hann er einstakur maður og góður vinur. Það var líklega erfiðast að segja honum að ég ætlaði í Þór."


Þekkir vel til Sigga Höskulds
Hvernig líst þér á samstarfið við Sigga Höskulds?

„Við Siggi eigum mjög gott vinasamband sem hófst árið 2013 þegar við kynntumst í ÍR, ég sem aðstoðarþjálfari og hann sem leikmaður og styrktarþjálfari. Ári síðar fékk ég hann til að spila hjá mér í Vængjum Júpíters og síðar unnum við saman í Stjörnunni, sem var í fyrsta skipti sem við þjálfuðum saman."

„Eftir það höfum við haldið góðu sambandi og áttum meðal annars frábæra ferð til Belgíu í tengslum við UEFA Pro gráðuna. Þar náðum við mjög vel saman fótboltalega og í umræðum um teymisvinnu. Á þeim tíma var hann að taka við Þór en ég á leið í Breiðablik,"
segir Eiður.

Tveir þjálfarar sem vinna mjög náið saman
Hann var síðast aðalþjálfari í stuttan tíma árið 2022 hjá Þrótti Vogum en þar á undan var hann í teymi með Pétri Péturssyni hjá Val. Er markmiðið að reyna aftur fyrir þér sem aðalþjálfari í framtíðinni?

„Í dag horfi ég fyrst og fremst á mig sem þjálfara og pæli lítið í titlum eins og aðal- eða aðstoðarþjálfari. Markmiðið núna er að gera vel fyrir Þór og ég er mjög ánægður með samstarfið við Sigga."

„Ég lít ekki á okkur sem aðalþjálfara og aðstoðarþjálfara, heldur tvo þjálfara sem vinna mjög náið saman. Við erum báðir í fullu starfi við meistaraflokkinn og allt sem við gerum snýst um að bæta liðið og félagið."

„Ég mun ekki aðstoða neinn annan en Sigga, en ef breytingar verða á einhverjum tímapunkti þá er ég klár. Vonandi verður samstarf okkar Sigga þó sem allra lengst,"
segir Eiður.

Í seinni hluta viðtalsins, sem birtur verður seinna í dag, ræðir hann um tímann sinn hjá Breiðabliki og samstarfið með Halldóri Árnasyni.
Athugasemdir
banner