Aron Baldvin Þórðarson fundaði með ÍBV á dögunum um möguleikann á því að verða næsti þjálfari liðsins. Aron Baldvin er aðstoðarþjálfari Sölva Geirs Ottesen hjá Íslandsmeisturum Víkings. Hann er þrítugur og hefur verið hjá félaginu síðan 2019 og í meistaraflokksteyminu frá 2022.
Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, um Aron Baldvin.
Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, um Aron Baldvin.
Ef þið mynduð missa hann, yrði það mikið högg fyrir ykkur?
„Hann er náttúrulega gríðarlega mikilvægur partur af okkar teymi og er búinn að vera í því í lengri tíma. Það er eins með hann eins og alla, við misstum Arnar (Gunnlaugsson) fyrir um ári síðan, auðvitað var það högg, en við urðum bara að finna lausnir á því. Við erum vel í stakk búnir til að finna lausnir á því (ef Aron fer)," segir Kári sem segir viðræðurnar ekki komnar langt, heldur nýbyrjaðar.
Ertu að sjá fyrir þér að hann gæti farið?
„Við þurfum að ná saman við ÍBV um kaupverð og annað áður en það gerist. Það fer enginn sem er mikilvægur partur af okkar teymi frítt, hvort sem það er leikmaður eða þjálfari, það kostar allt í þessum heimi."
Hver er hans styrkleiki?
„Hann er taktískt mjög sterkur og er búinn að vera hjá okkur lengi og þekkir inn á hvað við viljum gera. Hann er góður liðsmaður."
Lítur þú á það sem hrós á ykkar starf þegar menn sem eru kannski ekki í mesta sviðsljósinu eru líka að vekja athygli?
„Auðvitað. Við misstum Grím (Andra Magnússon) til Álaborgar - hann er að fara þangað sem aðalgreinandi rétt rúmlega tvítugur. Aron Baldvin er núna að vekja áhuga og Viktor Bjarki (Arnarsson) fyrr í vetur. Þeir eru allir að vekja athygli og það er staðfesting á því að við séum að gera eitthvað rétt."
Eruð þið með mann innan félagsins sem gæti tekið hans stöðu, eða þyrfti mögulega að leita annað?
„Við yrðum þá búnir að missa svolítið mikið frá okkur, við vorum með mann innanbúðar sem tók við af Grími, en það er ekki endalaust af innanbúðarmönnum. Þetta væri líka svolítið öðruvísi, þetta er ekki beint týpíski fótboltamaðurinn sem fer í þetta hlutverk. Þetta er meiri bakvinnsla, tölvuvinna og slíkt," segir Kári.
Athugasemdir




