Arsenal vill Toney - Sancho bannaður frá æfingasvæði Man Utd - Cucurella vill yfirgefa Chelsea í janúar
banner
   mið 02. mars 2022 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kári Daníel: Læknirinn sagði að ég hafi verið stálheppinn að lamast ekki
watermark Kári Daníel
Kári Daníel
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kári Daníel Alexandersson er leikmaður Vals og U19 landsliðsins. Hann hefur ekkert getað æft fótbolta síðustu mánuði eða frá því hann lenti í slysi á æfingu með Val í byrjun nóvember.

Kári meiddist á hálsi á æfingu. Eins og hann orðaði það sjálfur þá sleit hann nokkur liðbönd og hryggurinn skekktist um nokkra sentímetra.

„Ég er ekki ennþá byrjaður að æfa, það er svo mikil hætta að byrja aftur ef ég fengi annað högg," sagði Kári við Fótbolta.net í dag.

„Þetta gerðist þannig að ég fór í harkalega tæklingu eins og ég er vanur að gera á hverri æfingu. Ég fékk liðsfélaga minn ofan á mig og hálsinn snerist um 90 gráður. Læknirinn sagði að ég hafi verið stálheppinn að hafa ekki lamast."

Kári Daníel er átján ára gamall og lék á láni hjá Gróttu í Lengjudeildinni í fyrra. Tímabilið 2020 var hann á láni hjá Njarðvík. Hann á að baki ellefu unglingalandsleiki og spilaði með U19 í undankeppni fyrir EM síðasta haust.

„Þessa dagana einbeiti ég mér að skólanum, er að klára Versló í vor. Það er mjög óljóst hvenær ég má byrja að æfa aftur, það kemur bara í ljós. Núna í mars mun ég byrja í sjúkraþjálfun. Undanfarrnar vikur hef ég getað lifað eðlilegu lífi, ég má fara í ræktina og er búinn að vera lyfta á fullu," sagði Kári Daníel.
Athugasemdir
banner
banner