Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mið 02. mars 2022 21:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Útskýring: Af hverju er Abramovich að selja?
Abramovich ætlar að selja.
Abramovich ætlar að selja.
Mynd: EPA
Á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.
Á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea.
Mynd: Getty Images
Abramovich eftir sigur Chelsea á HM félagsliða.
Abramovich eftir sigur Chelsea á HM félagsliða.
Mynd: Getty Images
Chelsea er ríkjandi Evrópumeistari.
Chelsea er ríkjandi Evrópumeistari.
Mynd: EPA
Abramovich hefur átt Chelsea frá 2003.
Abramovich hefur átt Chelsea frá 2003.
Mynd: Getty Images
Rússinn Roman Abramovich tilkynnti það í kvöld að hann ætli sér að selja Chelsea, fótboltafélag sem hann hefur átt síðan 2003.

Abramovich hefur lagt gríðarlega mikinn pening í félagið og umbylti í raun Chelsea í það sigursæla félag sem það er í dag. En núna styttist í endalokin.

En af hverju? Fréttamaður Fótbolta.net leitaði til Björns Bergs Gunnarssonar, deildarstjóra Greiningar Íslandsbanka, í leit að útskýringum.

„Hann var, held ég, fyrsti ofurríki erlendi eigandinn sem keypti stórt félag á Englandi með þessum hætti. Hann er að selja þar sem það er mjög mikil pressa á að þvingunum verði beint að honum vegna tengsla við Pútín. Hann er ólígarki allra ólígarka og það virðist erfitt fyrir hann að halda félaginu, hvernig sem fer," segir Björn Berg.

Abramovich er meðal ríkustu manna Rússlands og hefur hann áður fyrr verið í nánum tengslum við Vladimír Pútín, forseta landsins. Rússneski herinn réðst inn í Úkraínu í síðustu viku og bjó til stríðsástand. Abramovich er sagður hræddur við það að fá refsingu frá breskum stjórnvöldum fyrir tengsl sín við stjórnvöld í Rússlandi.

Er í raun að gefa félagið frá sér
Abramovich er búinn að lána Chelsea um 1,5 milljarð punda, en hann segist ekki ætla að biðja um þann pening til baka frá félaginu. Hann segist jafnframt ætla að láta allan ágóða af sölunni í góðgerðarsjóð sem rennur til fórnarlamba stríðsins í Úkraínu. Hann er með því að reyna að lagfæra ímynd sína.

„Það verður ekkert mál fyrir hann að selja, en hætt við að hann fái ekki sama verð og hann hefði til dæmis fengið fyrir þremur eða fjórum árum. Það er pínu óskýrt sem hann segir í nýju tilkynningunni... Mér sýnist menn túlka sem svo að hann afskriftir öll lánin. Ef hann fær svo eitthvað fyrir félagið fari það í þennan styrktarsjóð."

„Hann sé í rauninni því að gefa félagið algjörlega frá sér."

Abramovich er það ríkur að það hefur ekki mikil áhrif á hann fjárhagslega að láta Chelsea frá sér. Hann talar um það í yfirlýsingunni að hann sé ekki að hugsa um peninga núna, heldur hag félagsins.

„Ég gef mér að hann sé að kaupa sig út úr harðari aðgerðum. Hann meti sem svo að hann fái ekki að halda félaginu og mögulega verði settar mjög harðar þvinganir á hann, jafnvel eignaupptaka. Þetta sé öruggari leið út og dragi mögulega úr líkunum á hörðum aðgerðum," segir Björn. Abramovich er að vinna í því að losa sig við allar eignir sínar á Englandi áður en breska ríkið tekur upp á því að taka þær af honum. Hann er að reyna að komast stikkfrí frá Englandi.

Það að hann sé í raun tilbúinn að losa sig við Chelsea án þess að fá eitthvað fyrir það sjálfur, það segir til um það hversu alvarlega hann lítur á stöðuna.

Segjum sem svo að hann selji félagið á tvo milljarða punda. Hvernig kemur sá peningur til með að dreifast?

„Ef þetta er þannig að hann afskrifar allar skuldir, þá fara tveir milljarðar í sjóðinn mínus kostnaðurinn við söluna (nokkrar milljónir punda)."

Utanfrá, þá lítur það út fyrir að Abramovich sé í raun bara að gefa félagið og ef það er rétt - þá skiptir ekki miklu máli fyrir hann hversu hátt kaupverðið sé. Það skiptir bara máli fyrir góðgerðarsjóðinn sem hann ætlar að setja upp. „Þetta hefur aldrei snúist um viðskipti eða peninga fyrir mig, heldur um ástríðu á leiknum og félaginu," sagði Rússinn í yfirlýsingu sinni.

Chelsea flott eign
Abramovich er byrjaður í þeirri vinnu að selja Chelsea. Svissneski milljarðamæringurinn Hansjörg Wyss sagði frá því í dag að sér hafi verið boðið að ganga í hóp fjárfesta sem hafi áhuga á því í sameiningu að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið. Wyss er 86 ára og segist hafa áhuga á því að taka þátt í kaupunum fyrir rétt verð.

„Chelsea, án sligandi skulda, er flottur klúbbur og flott eign fyrir einhvern sem slær til," segir Björn.

„Hann er að gera þetta ansi hratt, sem líklega lækkar verðið. En svona félög eru ekki á hverju strái og það kæmi mér ekki á óvart ef að einhver kaupi sem hefur þegar verið að leita að svona fjárfestingu. Ef þeir eru nokkrir þá auðvitað hækkar verðið, en ef það þarf að leita uppi kaupendur verður þetta erfitt fyrir hann."

Það verður áhugavert að sjá hvernig næstu dagar þróast hjá Chelsea, en þessu máli er hvergi nærri lokið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner