lau 02. ágúst 2025 15:54
Brynjar Ingi Erluson
„Algert kjaftæði að þetta sé lokatilboð Liverpool í Isak“
Alexander Isak
Alexander Isak
Mynd: EPA
Ef Newcastle tekst að ná í Sesko þá mun Isak fara til Liverpool
Ef Newcastle tekst að ná í Sesko þá mun Isak fara til Liverpool
Mynd: EPA
Keith Downie var fyrstur til að greina frá tilboði Liverpool í Isak
Keith Downie var fyrstur til að greina frá tilboði Liverpool í Isak
Mynd: Sky Sports
Keith Downie, blaðamaður Sky Sports í norðurhluta Englands, segir það nánast bókað að ef Newcastle kaupir Benjamin Sesko frá Leipzig þá fái Alexander Isak ósk sína uppfyllta um að fara til Liverpool.

Liverpool er reiðubúið að gera Isak að dýrasta leikmanni í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og hefur alls ekki farið leynt með áhuga sinn á sænska landsliðsmanninum.

Isak neitaði að fara með Newcastle í æfingaferð til Asíu og flaug í staðinn til Spánar þar sem hann æfði einn.

Liverpool lagði fram tilboð í gær upp á 110 milljónir punda sem Newcastle hafnaði. Afstaða Newcastle hefur verið skýr frá fyrsta degi og það er að Isak er ekki til sölu.

Í kjölfarið hafi Liverpool komið því áleiðis á blaðamenn að félagið muni ekki leggja fram annað tilboð. Downie segir það af og frá, enda séu fjórar vikur eftir af glugganum.

Hann segir þetta vera taktík hjá Liverpool og tók Fabrizio Romano undir það á Youtube-rás sinni þar sem hann sagði þessa taktík þekkta til þess að sýna leikmanninum að peningarnir eru til staðar og áhuginn sé raunverulegur. Þetta gæti ýtt Isak til þess að leggja fram formlega beiðni um sölu.

Liverpool er einnig að fylgjast með Newcastle á markaðnum því þeir svart-hvítu gætu aðeins verið opnir fyrir því að selja Isak ef annar toppframherji fæst í staðinn og þar er félagið að taka stórt skref.

Newcastle lagði fram 70 milljóna punda tilboð í Benjamin Sesko hjá Leipzig í nótt og er talið öruggt að Leipzig muni samþykkja það, en þá er undir Sesko komið að taka ákvörðun. Man Utd er einnig með í baráttunni og gæti jafnað tilboð Newcastle.

Fyrir nokkrum dögum var greint frá því að hugur Sesko leitaði meira til Man Utd en Newcastle en það hefur orðið einhver breyting á. Hann er opinn fyrir báðum félögum og nú er bara spurning hvort Newcastle nái endanlega að sannfæra hann um að koma.

Slóvenska blaðið Delo heldur því fram að Sesko hafi ákveðið að fara til Newcastle og ef það reynist satt eru meiri líkur en minni á að Isak fari til Liverpool.

„Ef Newcastle kaupir Sesko þá eru 90 prósent líkur á að Isak fari. Sesko er arftaki Isak.“

„Alexander Isak a að snúa aftur um helgina og mun hitta Eddie Howe þegar þeir koma aftur úr æfingaferðinni. Ef Sesko kemur mun það skapa greiða leið fyrir Isak að fara.

„Liverpool mun koma með hærra tilboð og það er bara algert kjaftæði að þeir hafi lagt fram sitt síðasta tilboð. Það eru fjórar vikur eftir af glugganum og þeir buðu vel undir því sem Newcastle vill fá. Auðvitað munu þeir koma með annað tilboð þó þeir hafi sagt annað. Tilfinningin er sú að þetta sé einhver leikur og þetta sé einhvers konar taktík og auðvitað erum við á milli í þessu öllu saman,“
sagði Downie á Youtube-rás sinni í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner