lau 02. ágúst 2025 14:58
Brynjar Ingi Erluson
Arnór og Ísak skoruðu í einum svakalegasta leik síðari ára
Ísak skoraði frábært mark
Ísak skoraði frábært mark
Mynd: Guðmundur Svansson
Arnór var á skotskónum
Arnór var á skotskónum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nökkvi Þeyr skoraði í æfingaleik með Spörtu
Nökkvi Þeyr skoraði í æfingaleik með Spörtu
Mynd: Sparta Rotterdam
Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru báðir á skotskónum í ótrúlegu 6-4 tapi Norrköping gegn Brommapojkarna í einum rosalegasta leik síðari ára í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Sjö mörk voru skoruð í fyrri hálfleiknum og í raun hálf ótrúlegt að Norrköping hafi ekki landað sigri.

David Moberg Karlasson skoraði tvö á tveimur mínútum fyrir Norrköping í byrjun leiksins áður en heimamenn minnkuðu muninn á 10. mínútu. Næst var röðin komin að Arnóri Ingva sem að nýtti sér misskilning í vörn Brommapojkarna, stal boltanum og setti hann niðri í vinstra hornið.

Ísak Andri var næstur á blað og var það mark af dýrustu gerð. Karlsson setti háan bolta út vinstra megin á Ísak sem átti laglega móttöku áður en hann hamraði boltanum í þaknetið.

Þetta reyndist síðasta mark Norrköping í leiknum, á meðan Brommapojkarna skoruðu tvö fyrir lok hálfleiksins og þrjú í þeim síðari.

Hlynur Freyr Karlsson var allan tímann á bekknum hjá Brommapojkarna og þá kom Jónatan Guðni Arnarsson inn af bekknum hjá Norrköping í síðari hálfleik.

Svakalegt hrun hjá Norrköping sem er í 11. sæti með aðeins 19 stig en Brommapojkarna í 9. sæti með 22 stig.





Ísak Snær Þorvaldsson kom inn af bekknum hjá Lyngby sem vann 2-0 sigur á Aarhus Fremad í dönsku B-deildinni. Ólafur Hjaltason kom inn á hjá Aarhus. Lyngby er á toppnum með 7 stig en Aarhus í neðsta með 1 stig.

Breki Baldursson kom inn á sem varamaður hjá Esbjerg sem vann Middelfart, 1-0. Esbjerg er í 5. sæti með 6 stig.

Elías Már Ómarsson spilaði allan leikinn í 4-2 tapi Meizhou Hakka gegn Shanghai Port í kínversku úrvalsdeildinni. Hakka er í 14. sæti með 13 stig.

Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði seinna mark Spörtu Rotterdam í 2-0 sigri á OFI Crete í æfingaleik og þá lék Helgi Fróði Ingason með Helmond Sport sem tapaði fyrir Kifisia, 1-0.
Athugasemdir
banner