lau 02. ágúst 2025 18:20
Ívan Guðjón Baldursson
Cajuste endar hjá Ipswich - Simeone til Torino
Mynd: Ipswich Town
Mynd: EPA
Það eru fréttir að berast úr herbúðum Napoli þar sem miðjumaðurinn Jens Cajuste er á leið aftur til Ipswich Town á Englandi.

Cajuste lék með Ipswich á lánssamningi í fyrra og stóð sig prýðilega þrátt fyrir fall úr ensku úrvalsdeildinni. Hann vakti áhuga ýmissa félaga úr enska boltanum sem reyndu að krækja í hann í sumar, en leikmaðurinn kaus að lokum að fara til Besiktas í Tyrklandi.

Þau skipti gengu þó ekki í gegn þar sem Cajuste náði ekki samkomulagi við tyrkneska félagið um kaup og kjör. Hann hefur því ákveðið að snúa aftur til Englands.

Ipswich borgar 2 milljónir evra til að fá Cajuste lánaðan á ný og fylgir kaupmöguleiki með lánssamningnum. Sá möguleiki, sem hljóðar upp á 7,5 milljónir til viðbótar, breytist í kaupskyldu ef Ipswich kemst aftur upp í úrvalsdeildina.

Napoli er þá einnig að losa sig við framherjann Giovanni Simeone sem er 30 ára gamall og hefur skorað 14 mörk í 103 leikjum með Ítalíumeisturunum. Vert er að taka fram að Simeone kom inn af bekknum í langflestum leikjunum sem hann spilaði fyrir félagið.

Simeone skiptir til Torino en félögin eru enn í viðræðum um kaupverð. Talið er að Argentínumaðurinn muni koma til með að kosta um 10 milljónir evra.

Simeone, sem á sex A-landsleiki að baki fyrir Argentínu, vann tvo Ítalíumeistaratitla á þremur árum hjá Napoli.
Athugasemdir
banner