lau 02. ágúst 2025 21:34
Ívan Guðjón Baldursson
Hákon skoraði gegn Dortmund - Eggert með mark og stoðsendingu
Mynd: KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Það var nóg um að vera í fótboltaheiminum í dag og komu ýmsir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins. Þar kom Hákon Arnar Haraldsson inn af bekknum hjá Lille og skoraði fjórum mínútum síðar gegn Borussia Dortmund.

Mark Hákonar dugði ekki til og urðu lokatölur 3-2 fyrir Dortmund eftir mörk frá Pascal Gross, Serhou Guirassy og Karim Adeyemi.

Hann var þó ekki eini Íslendingurinn sem skoraði því Eggert Aron Guðmundsson setti boltann einnig í netið í frábærum sigri Brann í norska boltanum.

Eggert Aron lagði fyrsta mark leiksins upp og skoraði svo síðasta markið til að innsigla 4-1 sigur á útivelli. Brann, sem leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar, fer upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum. Þar á liðið 33 stig eftir 17 umferðir.

Sævar Atli Magnússon var einnig í byrjunarliðinu hjá Brann á meðan Sveinn Aron Guðjohnsen var ónotaður varamaður í liði Sarpsborg.

Í sænska boltanum fékk hinn efnilegi Róbert Frosti Þorkelsson að spila síðustu mínúturnar í 2-2 jafntefli hjá GAIS gegn Varnamo.

Róbert Frosti er fæddur 2005 og uppalinn hjá Stjörnunni. Hann er með 19 leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands og leikur fyrir U21 liðið sem stendur.

GAIS er í fimmta sæti sænsku deildarinnar en þetta jafntefli veldur miklum vonbrigðum þar á bæ. Sigur hefði fleytt liðinu upp í þriðja sætið.

Kristian Nökkvi Hlynsson fékk þá að spreyta sig í æfingaleik hjá Twente gegn Udinese á meðan Bjarki Steinn Bjarkason var í byrjunarliði Venezia í jafntefli við Beerschot.

Gísli Gottskálk Þórðarson fékk að spila fyrri hálfleikinn í sigri hjá Lech Poznan gegn Gornik Zabrze í efstu deild í Póllandi. Staðan var markalaus í leikhlé en Gísli var einn af tveimur leikmönnum sem þjálfarinn fórnaði til að gera taktíska breytingu í hálfleik. Sú breyting skilaði 2-1 sigri í hús.

Andri Lucas Guðjohnsen fékk að spila síðustu mínúturnar í sigri hjá Gent í Belgíu en hann hefur verið orðaður við sölu frá félaginu. Valgeir Lunddal Friðriksson sat þá á bekknum og horfði á liðsfélaga sína í liði Fortuna Düsseldorf steinliggja á útivelli gegn Arminia Bielefeld.

Að lokum var Sveindís Jane Jónsdóttir í byrjunarliði Angel City sem tapaði á móti Seattle Reign í bandarísku NWSL deildinni. Angel City er aðeins með 15 stig eftir 14 umferðir, tíu stigum minna en Seattle.

Dortmund 3 - 2 Lille
1-0 Pascal Gross ('13)
2-0 Serhou Guirassy ('41, víti)
2-1 Hákon Arnar Haraldsson ('66)
3-1 Karim Adeyemi ('68)
3-2 Thomas Meunier ('81)

Sarpsborg 1 - 4 Brann
0-1 D. De Roeve ('42)
1-1 S. Orjasaeter ('51)
1-2 B. Finne ('65)
1-3 M. Haaland ('79)
1-4 Eggert Aron Guðmundsson ('84)

Varnamo 2 - 2 GAIS

Kortrijk 3 - 1 Torhout

De Graafschap 1 - 1 Volos

Lech Poznan 2 - 1 Gornik Zabrze

Arminia Bielefeld 5 - 1 Dusseldorf

Gent 1 - 0 RAAL


Seattle Reign 2 - 0 Angel City
1-0 J. Fishlock ('66)
2-0 A. Kennedy ('86, sjálfsmark)
Athugasemdir
banner
banner