lau 02. ágúst 2025 13:41
Brynjar Ingi Erluson
Ramsdale til Newcastle (Staðfest)
Mynd: Newcastle United
Enski markvörðurinn Aaron Ramsdale er genginn til liðs við Newcastle United á láni frá Southampton. Skjórarnir greina frá þessu í dag.

Ramsdale er 27 ára gamall og á fimm A-landsleiki með enska landsliðinu.

Hann kemur til Newcastle á láni út tímabilið og getur Newcastle fest kaup á honum á meðan lánsdvölinni stendur.

Englendingurinn féll niður um deild með Southampton á síðustu leiktíð en áður var hann aðalmarkvörður Arsenal og Sheffield United og á yfir 180 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er frábært að vera kominn hingað. Ég hef alltaf elskað að koma hingað og séð hversu ástríðufullir og háværir stuðningsmennirnir geta veirð. Ég hef alltaf elskað að spila á St. James' Park þó úrslitin hafi ekki alltaf fallið með mér, en þegar stuðningsmennirnir fylkjast á bak við þið breytist þetta í svakalegan stað.“

„Það er frekar súrrealískt að koma á leikvanginn og sjá hann tóman og að hugsa sér að þetta verði heimili mitt til framtíðar. Ég er kominn í treyjuna sem er með þessu fallega Meistaradeildarmerki og á erminni. Ég gæti ekki verið ánægðari,“
sagði Ramsdale.

Hann segir Eddie Howe, stjóra Newcastle, hafa spilað stóra rullu, en hann spilaði fyrir hann hjá Bournemouth frá 2017 til 2020.

„Það sem mér fannst mest aðlaðandi var að geta unnið aftur með stjóranum og teymi hans. Þeir hafa þegar haft svakaleg áhrif á feril minn og það var stjórinn sem breytti mér úr manni í atvinnumann í fótbolta hjá Bournemouth. Hann kenndi mér á þetta þannig það spila stóran þátt í því að ég ákvað að koma,“ sagði Ramsdale.


Athugasemdir
banner