Kantmaðurinn Anthony Gordon segist finna til með Alexander Isak, liðsfélaga sínum í Newcastle United sem gæti verið á förum frá félaginu í sumar.
Isak er ekki með Newcastle í æfingaferð um Asíu vegna mikils áhuga frá Englandsmeisturum Liverpool sem byrjuðu á 110 milljón punda tilboði í leikmanninn. Því var hafnað samstundis.
Gordon var í svipuðum málum í fyrrasumar þegar Liverpool reyndi að kaupa hann úr röðum Newcastle eftir Evrópumótið. Kantmaðurinn varð að lokum eftir í Newcastle.
Isak bað stjórnendur Newcastle um að selja sig til Liverpool en sú beiðni hefur fallið afar illa í kramið hjá hluta stuðningsmanna félagsins sem eru mjög bitrir og ósáttir út í einn af bestu framherjum enska boltans.
„Síðasta sumar var hræðilegt fyrir mig. Fyrst útaf EM þar sem ég sat bara á bekknum og síðar þegar ég hélt að Newcastle þyrfti að selja mig til að standast fjármálareglur ensku úrvalsdeildarinnar," sagði Gordon.
„Það varð ekkert úr félagaskiptunum en þetta var allt mjög erfitt fyrir mig andlega. Það var erfitt að ákveða að skipta til Liverpool og þegar ég var búinn að taka ákvörðun varð allt í einu ekkert úr því. Þetta var mjög erfitt fyrir mig og þess vegna get ég skilið hvað Alex er að ganga í gegnum þessa dagana. Við erum manneskjur eins og allir aðrir, fólk gleymir því oft.
„Ég vona að allir fái það sem þeir vilja að lokum."
Athugasemdir