Dagar danska landsliðsmannsins Rasmus Höjlund hjá Manchester United gætu verið taldir ef félaginu tekst að kaupa Benjamin Sesko frá Leipzig. Þetta kemur fram á Sky Sports.
Manchester United er í viðræðum við Leipzig um kaup á Sesko, en hefur ekki enn lagt fram formlegt tilboð.
Newcastle er einnig að ræða við Leipzig og hefur þegar lagt fram 70 milljóna punda tilboð sem var hafnað, en viðræðurnar héldu áfram í gærkvöldi og munu gera næstu daga.
Ef Man Utd tekst að klófesta Sesko þýðir það að enska félagið verði opið fyrir tilboðum í Höjlund.
Daninn hefur ekki náð sér á strik hjá United síðan hann kom frá Atalanta fyrir tveimur árum. Hann hefur sjálfur talað um að vilja berjast fyrir sæti sínu, en eflaust fýsilegri kostur að leita annað nú þegar HM er framundan.
Sky Sports segir að Leipzig hafi beðið um að fá Höjlund á láni skyldi Sesko fara í hina áttina, en það er ekki heldur hægt að útiloka það að United haldi Höjlund og verði með hann og Sesko í hópnum fyrir komandi leiktíð.
Sesko, sem er 22 ára gamall, mun velja á milli Man Utd og Newcastle á næstu dögum. United var líklegasti áfangastaður kappans fyrir nokkrum dögum, en nú halda slóvenskir miðlar því fram að Seko hafi skipt um skoðun og sé á leið til Newcastle.
Athugasemdir