Man Utd og Newcastle berjast um Sesko - Chelsea vill Simons og Garnacho - Nunez til Milan?
   sun 03. ágúst 2025 11:35
Brynjar Ingi Erluson
Vill eyða næstu tuttugu árum hjá Man Utd
Ruben Amorim
Ruben Amorim
Mynd: EPA
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, hefur trú á því að hann verði hjá félaginu næstu tuttugu árin, en gerir sér þó grein fyrir því að úrslitin munu stjórna lengd dvalarinnar.

Portúgalinn tók við United í nóvember á síðasta ári eftir að Erik ten Hag var rekinn.

Amorim náði ekki að snúa gengi liðsins við og versnaði í raun ástandið, en hann var trúr sínum aðferðum og sást á köflum hvað hann var að reyna byggja.

United lagði allt púður í Evrópudeildina og komst alla leið í úrslitaleikinn, en tapaði fyrir Tottenham. Liðið hafnaði í 15. sæti deildarinnar, en nú er komið nýtt tímabil og segist hann spenntur fyrir komandi tímum.

„Já, ég vil vera áfram. Ég vil vera hér í 20 ár. Það er markmiðið, hef trú á því og þannig hefur það alltaf verið. Eitthvað mun gerast og á sumum augnablikum verð ég heppinn. Ég hef verið mjög heppinn á þjálfaraferlinum og hugmyndin er að vera hér í mörg ár til viðbótar,“ sagði Amorim.

„Ég veit samt að úrslitin mun stjórna því og ég veit að ég nýtti allan kvótann á síðustu leiktíð, en ég er tilbúinn fyrir nýtt upphaf. Ég vil vera stjóri Manchester United í langan tíma og tók fimm ár í að velja þetta félag þannig ég vil ekki klúðra því.“

Hann er fullviss um að hann geti unnið titil með United og segir að staða hans hjá Sporting hafi verið sú sama.

„Ef þú skoðar söguna þá var þetta eins hjá Sporting. Þeir sögðu að ég yrði farinn eftir þrjá mánuði og að það væru aðeins 3 prósent líkur á að vinna einn titil með félaginu,“ sagði Amorim.

Portúgalinn tók við Sporting í mars árið 2020 og varð portúgalskur meistari með liðinu árið á eftir. Hann vann alls fimm titla á fjögurra og hálfs árs dvöl sinni hjá félaginu áður en hann tók við United.
Athugasemdir
banner