Ange Postecoglou, stjóri Tottenham Hotspur, var ánægður með að ná í stig á Etihad-leikvanginn í dag, en segir liðið hafa verið heppið að vera enn inn í leiknum í hálfleik.
Tottenham hafði tapað síðustu þremur leikjum og þurfti því liðið gríðarlega á því að halda að ná í stig gegn besta liði deildarinnar.
Postecoglou viðurkennir að Man City fékk mörg tækifæri til að ganga frá leiknum í fyrri hálfleik og að lærisveinar hans hafi verið heppnir að vera enn inn í leiknum.
„Þetta var skemmtilegur leikur þar sem það var nóg um að vera. Við vorum heppnir að vera inn í leiknum í hálfleik. Man City hefði getað slátrað okkur á þessum kafla, svipað og það sem gerðist fyrir okkur gegn Villa í síðustu viku.“
„Við náðum að hanga inn í leiknum og í seinni hálfleik vorum við töluvert betri. Meiri stjórn og trú í liðinu. Við vorum verðlaunaðir fyrir það, sem er auðvitað frábært fyrir strákana.“
Postecoglou var spurður út í karakterinn sem liðið sýndi í leiknum, en þá benti hann á að hann hafi verið þar frá því hann tók við liðinu.
„Hann hefur verið þarna allt árið en úrslit í síðustu leikjum hafa falið hann svolítið. Við erum svolítið berskjaldaðir og hef ég beðið leikmenn um að spila í stöðum sem þeir eru ekki vanir að spila, en hafa samt náð að spila góðan fótbolta. Karakterinn hefur verið hérna allt árið, en við þurftum svo sannarlega á honum að halda í dag.“
„Man City er ótrúlegt lið og það koma oft augnablik þar sem þú þarft bara að hanga á einhverju eins og við gerðum í dag,“ sagði Postecoglou ennfremur.
Athugasemdir