mán 04. júlí 2022 09:11
Brynjar Ingi Erluson
Hörður með samningstilboð frá CSKA
Hörður Björgvin Magnússon gæti verið áfram hjá CSKA eftir allt saman
Hörður Björgvin Magnússon gæti verið áfram hjá CSKA eftir allt saman
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon kvaddi rússneska félagið CSKA Moskvu í síðasta mánuði eftir fjögur ár hjá félaginu en nú mánuði síðar er hann með samningstilboð á borðinu en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Hörður, sem er 29 ára gamall, var keyptur til CSKA frá Bristol City árið 2018, rétt fyrir HM.

Varnarmaðurinn skoraði fimm mörk í 76 deildarleikjum með rússneska félaginu en var lítið með á síðustu leiktíð vegna meiðsla.

Hann kom við sögu undir lok tímabilsins áður en samningur hans rann út.

Hörður var búinn að kveðja liðsfélaga sína og stuðningsmenn á samfélagsmiðlum og ekki í myndinni að vera áfram hjá félaginu en nú er staðan önnur.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur CSKA boðið Herði nýjan samning en viðræður eru í gangi. Samningurinn sem CSKA bauð er til eins árs með möguleika á árs framlengingu.

Hörður er ánægður í Rússlandi og hefur fjölskyldan komið sér vel fyrir en hann er opinn fyrir hugmyndinni að vera áfram í Moskvu.

Mörg félög hafa áhuga á Herði en hann er sterklega orðaður við AEK og Panathinaikos í Grikklandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner