banner
   mán 04. nóvember 2019 16:30
Magnús Már Einarsson
Er Pukki partýið búið?
Pukki byrjaði tímabilið á þvílíku flugi.
Pukki byrjaði tímabilið á þvílíku flugi.
Mynd: Getty Images
Finnski framherjinn Teemu Pukki kom eins og stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina á þessu tímabili en hann skoraði sex mörk í fyrstu fimm leikjum tímabilsins.

Síðan þá hafa nú liðið sex leikir án þess að hann hafi skorað eitt einasta mark. Stuðningsmenn Norwich spyrja sig hvort að Pukki partýiið sé búið.

Ef XG tölfræði er skoðuð þá hefði mátt reikna með 2,4 mörkum frá Pukki miðað við þau færi sem hann fékk í fyrstu fimm leikjunum. Þá gekk allt upp og hann skoraði mögnuð mörk þó færin hafi oft verið erfið.

Sama tölfræði sýnir að Pukki hefði átt að skora 1,4 mörk í síðustu sex leikjum. Dauðafæri sem fór forgörðum gegn Manchester United er þar inn í.

Þó mörkin séu ekki að koma hjá Pukki í dag þá var mesta hættan af honum í sóknarleik Norwich gegn Brighton um helgina. Finninn þarf hins vegar að fara að skora á ný því vörn Norwich lekur helling af mörkum og liðið hefur fengið 26 mörk á sig í fyrstu ellefu umferðunum.

Norwich mætir Watford í botnbaráttuslag á föstudagskvöldið en Pukki er síðan á leið í spennandi verkefni með landsliði Finnlands. Finnar fá Helga Kolviðsson og lærisveina hans í Liechtenstein í heimsókn í undankeppni EM föstudaginn 15. nóvember. Sigur þar kemur Finnum á stórmót í fyrsta skipti í sögunni en Pukki hefur verið í stuði í undankeppninni og skorað sjö mörk í sex leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner