'Ég myndi segja að mitt stoltasta fótbolta afrek væri að spila heimaleikinn á móti Zrinjski Mostar sumarið 2023 og halda hreinu'
Brynjar Atli Bragason hefur yfirgefið Breiðablik og er fluttur til Svíþjóðar þar sem kærasta hans, landsliðskonan Alexandra Jóhannsdóttir, býr og spilar með Kristianstad. Brynjar Atli, sem er 25 ára, hefur verið hjá Blikum undanfarin ár en heldur nú annað.
Fótbolti.net ræddi við Njarðvíkinginn.
Fótbolti.net ræddi við Njarðvíkinginn.
Ákvað að flytja snemma síðasta sumar
„Þessi ákvörðun kom kannski ekki mörgum á óvart. Það vissu allir sem voru í kring um mig að ég væri í fjarsambandi og að ég myndi á endanum kveðja til þess að flytja út."
„Ég tók ákvörðun snemma síðasta sumar að ég ætlaði að flytja út og sagði þáverandi þjálfarateymi frá því strax og að ég var búinn að ákveða mig. Á þessum tímapunkti var ég nýbúinn að klára meistaranámið mitt og við vorum að hefja undankeppnina fyrir deildarkeppni í Evrópu."
„Mér fannst best að taka ákvörðun um ákveðna dagsetningu og ákvað að ég vildi klára deildina heima en vildi flytja, burtséð frá því hvort við kæmumst í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar eða ekki. Fyrir mér var það ekki þess virði að hanga heima í tvo mánuði fyrir örfáa leiki á bekknum. Dóri og teymið tók vel í þetta og studdu mig og mínar ákvarðanir. Síðan kemur Óli náttúrulega inn rétt fyrir brottför og hann skildi þetta bara vel," segir Brynjar Atli sem er með meistaragráðu í Lyfjafræði.
Óskar hjálpaði honum að skilgreina sig upp á nýtt
Hjá Breiðabliki myndaði Brynjar Atli markmannsteymi með Antoni Ara Einarssyni. Brynjar lék níu keppnisleiki með Blikum á tímabilunum fimm. Hvernig gerir þú upp tímann í Breiðabliki?
„Ég geng virkilega stoltur frá borði. Þegar ég skrifaði undir árið 2020 þá byrjaði ég á því að hefja mikla samkeppni við Anton. Markmiðið var alltaf að slá hann út enda forgangsraðaði ég fótboltanum í fyrsta sætið hjá mér á þeim tíma."
„Síðan með árunum koma ákveðnar áherslubreytingar hjá mér persónulega, ég hafði ótrúlega gaman af náminu og fór að taka það fram yfir fótboltann. Það tók mig í raun smá tíma til að átta mig á því hvert ég vildi stefna í lífinu og það voru síðan nokkur spjöll með Óskari sem hjálpaði mér að sjá allt í skýrari mynd."
„Hann sá það á undan mér að áhuginn minn á náminu væri meiri og hjálpaði mér að skilgreina sjálfan mig upp á nýtt. Þetta var mjög erfiður kafli hjá mér persónulega því eg ólst upp sem afreksmaður í íþróttum. Flaug inn í yngri landsliðin í bæði fótbolta og körfubolta og þess vegna var erfitt að fara í sjálfsskoðun. Á endanum breytti ég sjálfsmynd minni í eitthvað meira en bara fótboltamann."
„Þá tók við öðruvísi hlutverk hjá mér innan Breiðabliks sem snerist að því að styðja við liðsfélaga mína eins vel og ég gat. Drifkraftur minn fór í það að gera allt sem í mínu valdi stóð til að liðsfélögum mínum gengi vel."
Hefði verið löngu farinn annað
„Þegar ég mætti á æfingar, sat í klefanum eða spilaði leiki þá var það til þess að styðja við bakið á þeim. Það var þessi áherslubreyting sem hjálpaði mér að vera besta útgáfan af hlutverkinu sem ég var í. Ef ég hefði enn hungrið til að spila þá hefði ég verið löngu farinn í annan klúbb. Ég myndi segja að mitt stoltasta fótbolta afrek væri að spila heimaleikinn á móti Zrinjski Mostar sumarið 2023 og halda hreinu. Annars myndi ég segja að hápunkturinn væri að upplifa trylltu gleðina með öllum í bæði skiptin þegar við urðum Íslandsmeistarar."
„Það komu nokkrir tímapunktar sem ég hafði kost á því að fara annað. Ég viðurkenni það alveg að ég pældi alveg í því nokkrum sinnum að fara en á endanum ákvað ég alltaf að halda áfram hlutverki mínu. Mér leið vel innan klúbbsins og fyrst að hungrið fyrir því að spila var farið að dvína að þá taldi ég Breiðablik alltaf vera besta staðinn fyrir mig."
„Auðvitað komu tímabil inn á milli þar sem ég var minna stemmdur fyrir æfingum. Það komu einstaka æfingar sem ég var pirraður og sýndi ekki mínar bestu hliðar en ég reyndi eins og ég gat að lágmarka það. Þegar Anton spilaði ekkert frábærlega eitt tímabilið fannst mér á þeim tíma ég eiga skilið fleiri sénsa. Annars er ég ekki svekktur út í neinn og ferðalagið tók mig bara í þá átt sem ég átti að fara," segir Brynjar Atli.
Skoðar sín mál af yfirvegun
Hvað ætlar þú að gera í Svíþjóð, ertu opinn fyrir því að spila áfram?
„Það er bara óákveðið eins og staðan er núna. Ég er fluttur út og byrjaði bara á því að taka mér gott frí með Alexöndru í Tælandi, við höfum ekki náð að taka frí saman síðan 2019 svo við ákváðum að nýta tækifærið á meðan að deildin hennar væri í fríi."
„Annars ætla ég bara að skoða mín mál með yfirvegun. Ég er ekki búinn að leggja skóna á hilluna og ég ætla bara að sjá hvað verður í boði fyrir mig, hvort sem það verður eitthvað tengt gráðunni minni eða hvort það verði inni á fótboltavellinum," segir markvörðurinn að lokum.
Athugasemdir



