Darren Fletcher er tekinn við sem bráðabirgðaþjálfari Manchester United á meðan félagið leitar að nýjum manni í starfið, annað hvort til frambúðar eða út tímabilið.
Fletcher er þjálfari U18 liðs Man Utd en hann þekkir gríðarlega vel til innan félagsins eftir að hafa verið þar í 20 ár sem leikmaður og unnið til ógrynni titla með liðinu. Hann stýrir liðinu gegn Burnley annað kvöld en óljóst er hvort hann verði ennþá við stjórnvölinn í næsta leik þar á eftir gegn Brighton eða gegn Manchester City um miðjan mánuð.
Í dag svaraði Fletcher spurningum á sínum fyrsta fréttamannafundi eftir að hafa tekið við keflinu af Ruben Amorim, sem var rekinn í gær eftir nokkuð opinbert ósætti við stjórnina.
„Þetta hafa verið ótrúlegar 24 klukkustundir. Það er mikill heiður að fá að stýra Manchester United, þetta er eitthvað sem mig dreymdi ekki einu sinni um að gæti gerst. Ég er svo stoltur að fá þetta tækifæri," sagði Fletcher í dag. „Ég hefði viljað taka við liðinu undir öðrum kringumstæðum en ég er tekinn við og hef verk að vinna."
Fletcher verður á hliðarlínunni á útivelli gegn fallbaráttuliði Burnley annað kvöld og var spurður hvort hann vilji vera lengur heldur en það.
„Ég hef ekki hugsað út í það, þetta er allt að gerast svo hratt að ég verð að einbeita mér að næsta verkefni. Öll mín orka fer í að hugsa um leikinn gegn Burnley. Ég get hugsað og rætt um aðra hluti eftir leikinn. Ég veit að þetta er klisjukennt svar en svona er þetta í alvöru. Strákarnir spiluðu við Leeds bara um helgina þannig að við höfum ekki haft tíma í neitt annað en að einblína á undirbúning fyrir leikinn gegn Burnley."
Man Utd er í 5.-6. sæti úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 20 umferðir. Liðið er þremur stigum frá meistaradeildarsæti en það er rosalega þéttur pakki fyrir neðan. Til dæmis eru bikarmeistarar Crystal Palace í 14. sæti með 27 stig, fjórum stigum minna heldur en United.
Tvíburarnir Jack og Tyler Fletcher eru synir Darren og leika báðir fyrir unglingalið Man Utd. Rauðu djöflarnir eru að glíma við meiðslavandræði og því gætu synir Darren komið við sögu á næstu vikum.
Jack er lykilmaður í yngri landsliðum Englands og hefur komið við sögu í nokkrum keppnisleikjum með meistaraflokki United.
Tyler leikur fyrir yngri landslið Skotlands en hefur aldrei fengið að spreyta sig í keppnisleik með United.
Athugasemdir



