Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 17:11
Kári Snorrason
Viðræðum ÍBV og Víkings slitið - Aron Baldvin áfram hjá Víkingi
Aron Baldvin Þórðarson verður áfram aðstoðarþjálfari Víkings.
Aron Baldvin Þórðarson verður áfram aðstoðarþjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flosnað hefur upp úr viðræðum ÍBV og Víkings um að Aron Baldvin Þórðarson, aðstoðarþjálfari Víkings, mun taka við þjálfarastarfi ÍBV. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net mun hann halda áfram starfi sínu sem aðstoðarþjálfari í Víkinni.

Fótbolti.net greindi frá því í síðustu viku að Aron hafi fundað með ÍBV. Aron er þrítugur og hefur verið í meistaraflokksteymi Víkings frá árinu 2022 og varð aðstoðarþjálfari þegar Sölvi Geir Ottesen tók við Arnari Gunnlaugssyni fyrir rétt tæplega ári síðan.

Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála Víkings, sagði í samtali við Fótbolta.net í síðustu viku að liðið væri með verðmiða á Aroni og ÍBV þyrfti að ná samkomulagi við Íslandsmeistaranna svo möguleiki yrði á því að Aron tæki við starfinu.

ÍBV er í þjálfaraleit eftir að Þorlákur Árnason sagði skyndilega upp störfum í upphafi desembermánaðar. ÍBV hefur rætt við ýmsa aðila og var greint frá því á síðunni fyrr í dag að serbneskur þjálfari væri á radar Eyjamanna.

Túfa, Srdjan Tufegdzic, var efstur á óskalista ÍBV en gaf félaginu afsvar fyrir áramót og tók við þjálfun IFK Värnamo í Svíþjóð. Ejub Purisevic og Steven Caulker hafa einnig verið orðaðir við Eyjaliðið.
Athugasemdir
banner
banner