Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Mjög sáttur með ákvörðunina - „Meira tekið eftir því þegar liðið vinnur helling af leikjum"
Með Íslandsmeistaraskjöldinn eftir frábært tímabil.
Með Íslandsmeistaraskjöldinn eftir frábært tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er bara sturlað að spila með þeim báðum'
'Það er bara sturlað að spila með þeim báðum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ekkert eðlilega seigur og mikilvægur partur af liðinu því hann hatar að tapa'
'Ekkert eðlilega seigur og mikilvægur partur af liðinu því hann hatar að tapa'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fyrir mér var ákvörðunin tekin á góðum tíma, búinn að taka bikar með uppeldisfélaginu'
'Fyrir mér var ákvörðunin tekin á góðum tíma, búinn að taka bikar með uppeldisfélaginu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er alltaf til í að klæða mig í þá treyju'
'Ég er alltaf til í að klæða mig í þá treyju'
Mynd: KSÍ
'Það er meira tekið eftir því þegar liðið sem maður er að spila í er að vinna helling af leikjum'
'Það er meira tekið eftir því þegar liðið sem maður er að spila í er að vinna helling af leikjum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Hafsteinsson gekk í raðir Víkings fyrir rúmlega ári síðan frá uppeldisfélaginu KA. Daníel nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við KA og samdi við Víking.

Á fyrsta tímabili með Víkingi var hann í lykilhlutverki í liðinu, spilaði í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar, varð Íslandsmeistari og var í liði ársins þegar Íslandsmótið var gert upp.

Fótbolti.net ræddi við miðjumanninn, sem skoraði fimm mörk og lagði upp sex í Bestu deildinni 2025, um fyrsta árið í Víkinni.

Mjög sáttur með ákvörðunina
„Ég er mjög sáttur með að hafa tekið þess ákvörðun fyrir rúmu ári síðan, fyrir mér var hún tekin á góðum tíma, búinn að taka bikar með uppeldisfélaginu og þá búinn með 6-7 tímabil þar og fann að það var kominn tími til að prófa eitthvað nýtt og það heppnaðist vel," segir Daníel.

Var árið 2025 það besta á ferlinum?

„Já, það svona má alveg segja það, en svona fyrir mitt leyti fannst mér ég ekki eiga mikið verra ár í fyrra með KA, en það er meira tekið eftir því þegar liðið sem maður er að spila í er að vinna helling af leikjum. Svo eru náttúrulega fullt af breytum, ennþá fleiri frábærir leikmenn, með fullri virðingu fyrir fyrrum liðsfélögum og sjálfstraust sem fylgir með sigrunum svo eitthvað sé nefnt."

Fyrstu keppnisleikir Daníels voru gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni. Hvernig var að spila þá leiki?

„Það var bara ógeðslega gaman og fínasta leið til að komast af alvöru inn í nýtt lið. Það hefði síðan verið ennþá betra að klára þetta einvígi, en það verður þá bara að bíða betri tíma."

Vissu að þeir væru með sturlað lið
Það var smá hikst á Víkingum snemma í mótinu. Það vekur alltaf athygli þegar Víkingur tapar, liðið datt úr leik í bikar og tapaði gegn nýliðum í kjölfarið. Hvernig var sá kafli?

„Ég fann aldrei fyrir einhverju svakalegu panikki, hlutirnir voru bara ræddir í rólegheitunum og síðan bara: 'áfram gakk við þurfum að gera betur og við vitum það að við erum með sturlað lið'."

Var einhver lykill að því að liðið náði takti eftir byrjunina?

„Nei, svo sem ekki, bara ákveðinn taktur sem fannst, vorum að vinna leiki þrátt fyrir kannski ekki frábæra frammistöðu, sjálfstraust fylgdi með því og takturinn á sama tíma."

Geggjaðir liðsmenn
Daníel spilaði mest með Gylfa Þór Sigurðssyni inn á miðsvæðinu og Valdimar Þór Ingimundarson var fyrir framan þá. Hvernig er að spila með þeim?

„Það er bara sturlað að spila með þeim báðum, það besta við það er að þegar þú ert kannski orðinn þreyttur; búinn að hlaupa mikið, þá eru þetta svona gæjar sem geta tekið boltann, snúið á 2-3 menn og brotið upp leikinn. Þeir geta búið til mörk eða þá að þeir bakka þig upp þegar þú drullar á þig, þeir eru ekki bara góðir í bolta heldur sömuleiðis geggjaðir liðsmenn."

Er einhver leikmaður í Víkingi sem þú hafðir spilað gegn en upplifðir öðruvísi eftir að þú komst, jafnvel áttaðir þig á því hversu mikilvægur hann væri liðinu?

„Nei, í raun enginn. En af því ég elska að hlusta á Kalla (Karl Friðleif) þegar hann er lengst uppi í skýjaborgum þá ætla ég að upphefja hann með því að segja að hann sé ekkert eðlilega seigur og mikilvægur partur af liðinu því hann hatar að tapa og getur verið algjör dólgur inni á velli, já og líka í reit."

Mun aldrei geta útskýrt það
Í ágúst fór Víkingur til Danmerkur í leik gegn danska stórliðinu Bröndby. Víkingur fór með þriggja marka forystu eftir öruggan sigur á Víkingsvelli. Danirnir minnkuðu muninn í lok fyrri hálfleiks, þá orðnir manni færri, og bættu við þremur mörkum í seinni hálfleik.

„Þetta var svona einhver mesti skellur sem ég hef upplifað á ferlinum. Í svona 135 mínútur í einvíginu hugsaði ég: 'við erum alltaf að fara klára þetta, það er engin testi í þeim'. Síðan þegar þeir setja þetta fyrst mark og koma út í seinni kemur bara einhver allt önnur skepna og eitthvað sem ég mun aldrei geta útskýrt."

„Annars var þetta ekki frábær upplifun, en þetta var bensín og snúningspunktur í átt að titlinum, eitthvað sem maður á klárlega að muna og nýta þessa vondu minningu sem góða reynslu í framtíðinni."


Hlakkar til að sjá KA vinna Þór
Hvernig var að fylgjast með KA í fyrra?

„Það var bara gaman, skemmtileg tilbreyting að horfa á KA leiki í sjónvarpinu og síðan auka hvatning að taka gömlu félagana þegar við mættumst í sumar. Ég hlakka mikið til að sjá þá taka sex stig af Þórsurum á komandi tímabili."

Hausinn er hjá Víkingi
Hvað tekur svo við núna? Þú prófaðir þig úti með Helsingborg á sínum tíma, langar þig að fara aftur út?

„Það er bara reyna koma sér í eitthvað skepnu stand fyrir langt tímabil með geggjuðu Víkingsliði. Hausinn er þar og síðan verður annað að koma í ljós."

Alltaf klár í að klæðast landsliðstreyjunni
Það er landsleikur gegn Mexíkó í lok febrúar. Ertu að horfa í möguleikann á því að klæðast aftur landsliðstreyjunni

„Já, ég væri klárlega til í að taka þátt í því ef það er eitthvað sem er í boði fyrir mig. Ég er alltaf til í að klæða mig í þá treyju," segir Daníel að lokum en hann spilaði sinn fyrsta og eina landsleik til þessa árið 2022 gegn Suður-Kóreu.
Athugasemdir
banner
banner