sun 05. apríl 2020 08:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Cahill: Samband mitt og Sarri var orðið að engu
Mynd: Getty Images
Gary Cahill fékk ekki mörg tækifærin í stjóratíð Maurizio Sarri hjá Chelsea. Cahill var á tímabili fyrirliði Chelsea liðsins en Sarri var lítið fyrir það að gefa Cahill tækifæri í liði sínu.

Þegar Cahill lítur til baka er hann allt annað en sáttur með ítalska stjórann og segir erfitt að bera virðingu fyrir honum. Cahill vann með Chelsea úrvalsdeildina í tvígang, tvisvar sinnum varð hann enskur bikarmeistari og einu sinni vann hann Meistaradeildina, Evrópudeildina og deildabikarinn.

Cahill spilaði 290 leiki og eftir að John Terry fór frá Chelsea tók Cahill við sem fyrirliði. Cahill spilaði einunigs tvo deildarleiki með Chelsea á síðustu leiktíð og fór í kjölfarið til Crystal Palace á frjálsri sölu.

„Við komumst í undanúrslit HM 2018 svo ég var ekki með á undirbúningstímabilinu. Það skipti sköpum þegar ég lít til baka núna. Þegar tímaibilið var hálfnað var samband mitt og Sarri orðið að engu. Ég held að það hefði ekki getað lagast.," sagði Cahill í samtali við Jamie Redknapp.

„Það er erfitt að bera virðingu fyrir honum vegna þess sem hann gerði. Hann gaf mér aldrei nokkra leiki í röð til að koma mér inn í liðið."

Cahill segist þá einnig sjá eftir eigin hegðun þegar sambandið sigldi í strand, hann hefði viljað fara öðruvísi að en hann ber enn mikla virðingu fyrir Chelsea sem félagi og leikmönnum liðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner