
Það er vonast til þess að landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir geti verið með þegar Ísland mætir Sviss í öðrum leik sínum á Evrópumótinu á morgun. Glódís Perla þurfti að fara af velli í háflleik gegn Finnlandi í fyrsta leik þar sem hún var að glíma við veikindi.
Hún hefur ekki æft síðustu tvo daga, en var með á æfingu í dag. Hún kláraði ekki æfinguna en tók þátt samt sem áður í hluta af æfingunni. Svo verður tekin ákvörðun um það á morgun hvort að hún spili.
Glódís, sem er eins og áður segir fyrirliði landsliðsins, var ekki mætt á fréttamannafund í dag en það var ekki út af veikindunum. Fyrir hvern leik á Evrópumótinu mætir Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafund ásamt leikmanni en á mótinu rótera leikmenn á fundunum á milli leikja. Glódís tók fyrsta leikinn, Ingibjörg Sigurðardóttir tók leikinn í dag og svo verður annar leikmaður fyrir næsta leik þar á eftir gegn Noregi. Fá þannig fjölmiðlar að ræða við fleiri leikmenn.
Þetta var líka svona á EM 2022 þar sem Sara Björk Gunnarsdóttir tók fyrsta fréttamannafund, Dagný Brynjarsdóttir tók annan og Glódís Perla, sem var þá varafyrirliði, tók þriðja fundinn.
Stelpurnar okkar þurfa á sigri að halda á morgun til að halda í vonina um að komast áfram í 8-liða úrslitin á mótinu.
Athugasemdir