Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
banner
   lau 05. júlí 2025 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
Fréttakona SRF við Fótbolta.net: Hún er demanturinn okkar
Icelandair
EM KVK 2025
Sydney Schertenleib í leik með Sviss gegn Íslandi.
Sydney Schertenleib í leik með Sviss gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Lia Walti er fyrirliði Sviss.
Lia Walti er fyrirliði Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísland tapaði fyrsta leik gegn Finnlandi.
Ísland tapaði fyrsta leik gegn Finnlandi.
Mynd: EPA
„Þetta er mikil sæla fyrir okkur. Þetta er í fyrsta sinn þar sem okkar kynslóð er að upplifa stórmót á heimavelli og það er mjög sérstakt," sagði svissneska blaðakonan Sibylle Eberle við Fótbolta.net fyrir leik Sviss og Íslands á Evrópumótinu í fótbolta sem fer fram annað kvöld.

Hún ræddi við fréttamann Fótbolta.net í hótelgarði íslenska landsliðsins í Gunten í Sviss þar sem hún var mætt að taka viðtöl fyrir svissneska sjónvarpið.

„Það sem er gott er að það er búið að vera frábært veður í byrjun mótsins og það hjálpar upp á að fólk út um allt land sé í góðu skapi. Í fyrsta leiknum spilaði Sviss gegn Noregi í Basel og það voru þúsundir manns í rauðu og hvítu í borginni sem var virkilega skemmtilegt að sjá," segir Eberle.

Bjartsýni þrátt fyrir tap
Sviss tapaði fyrsta leik mótsins gegn Noregi, rétt eins og Ísland tapaði gegn Finnlandi. Það var neikvæð umræða eftir tap Íslands en Svisslendingar voru að mörgu leyti ánægðir með frammistöðu sína í leiknum.

„Ég held að bjartsýnin hafi orðið meiri eftir fyrsta leik þó liðið hafi tapað. Þær spiluðu mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleiknum," segir Eberle.

„Við höfum ekki séð svissneska liðið spila svona vel í langan tíma. Það gefur okkur ástæðu til bjartsýni. Þær spiluðu vel. Þessi riðill er mjög jafn og það geta öll liðin unnið hvort annað. Það hefði verið fínt að byrja á sigri, augljóslega, en það er ekkert tapað enn. Við sáum að Finnland getur unnið Ísland og við spiluðum tvisvar við Ísland í Þjóðadeildinni. Það voru jafnir leikir. Við vitum að við getum unnið næstu tvo leiki."

Aðspurð hvernig hún metur möguleikana gegn Íslandi, þá segir Eberle:

„Við erum með stuðningsmennina með okkur. Við sáum hvað það gaf liðinu í fyrsta leiknum; þær voru hvattar áfram og flugu við það út um allan völl. Ég vona að það gerist aftur."

Eru með unga stjörnu og heimsklassa leikmann
Í svissneska liðinu eru áhugaverðir leikmenn. Bjartasta vonin í svissneska liðinu er hin 18 ára gamla Sydney Schertenleib sem spilar með Barcelona.

„Sydney Schertenleib er ungur leikmaður og ekki með mikla reynslu. En ég meina, hún er demtanurinn okkar," segir Eberle. „Hún getur breytt miklu þó hún sé ekki endilega að byrja. Mér finnst hún alltaf geta breytt leikjum. Ég sé bjarta framtíð með leikmenn eins og hana."

En stærsta stjarnan í liði Sviss er fyrirliðinn Lia Walti sem spilar með Arsenal. Hún hefur spilað 128 landsleiki og er ein besta sexa í heiminun.

„Lia Walti er gríðarlega mikilvægur leikmaður. Það var óvissa með hana fyrir mót þar sem hún var að glíma við hnémeiðsli. Við vorum ekki viss um að hún gæti spilað. Hún byrjaði fyrsta leik og stóð sig vel. Það sem ég veit núna er að hún er með liðinu og vonandi mun hún byrja aftur á móti Íslandi."

Hún stendur þarna
Aðspurð út í stærstu ógnina hjá Íslandi, þá lítur Eberle upp og bendir. Þarna stendur Sveindís Jane Jónsdóttir í hótelgarðinum.

„Ein þeirra stendur þarna, ég er að horfa á hana," segir Eberle sem er vel meðvituð um gæði Sveindísar eftir leiki Íslands og Sviss í Þjóðadeildinni.

„Hún er með löng innköst og það er stórt vopn. Við sáum það mikið í Þjóðadeildinni og það stressar okkur. Það er mjög hættulegt. Við þurfum að hafa stjórn á henni og það er mikilvægt. Hún er lykilmaður fyrir Ísland."

Jákvætt eða neikvætt?
Eins og áður segir, þá er Sviss á heimavelli. Það getur brugðið til beggja vona með það þar sem þær geta nýtt sér stuðninginn en það gæti líka verið of mikil pressa. Eftir að hafa séð fyrsta leikinn gegn Noregi, þá telur Eberle að stuðningurinn muni bara hjálpa liðinu.

„Ég var hrædd um það fyrir fyrsta leik, en svo sá ég hvernig þær byrjuðu gegn Noregi. Frá því augnabliki er ég ekki hrædd lengur. Ég sé hversu mikið stuðningsmennirnir gefa liðinu. Þetta er bara jákvætt, ekki neikvætt," sagði Eberle að lokum.
Athugasemdir
banner