Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 05. október 2022 12:30
Elvar Geir Magnússon
Davíð Kristján: Reynsluboltarnir gefa íslenska landsliðinu miklu meira en fólk heldur
Davíð Kristján Ólafsson.
Davíð Kristján Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð í leiknum gegn Venesúela.
Davíð í leiknum gegn Venesúela.
Mynd: EPA
Alfreð Finnbogason er einn af reynsluboltunum sem eru komnir aftur í íslenska landsliðshópinn.
Alfreð Finnbogason er einn af reynsluboltunum sem eru komnir aftur í íslenska landsliðshópinn.
Mynd: EPA
Davíð Kristján Ólafsson, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins, fékk verðskuldað lof fyrir frammistöðu sína í liðnum landsleikjaglugga. Hann var einn besti leikmaður Íslands í sigrinum gegn Venesúela í vináttulandsleik og jafnteflinu gegn Albaníu í Þjóðadeildinni.

Davíð var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardaginn og ræddi um leikina.

„Það var geggjað að ná í sigur gegn Venesúela á lokamínútunum og í þessum Albaníuleik var skellur að missa Aron (Einar Gunnarsson) út af, að missa svona reynslumikinn mann. Fyrir mig persónulega tók það smá tíma að átta mig á því. Maður þurfti að taka meira svæði og þannig," segir Davíð.

„Í hálfleik sagði Arnar að við værum ekki að fara að tapa þessum leik. Við þurftum að koma okkur aðeins betur saman. Það var geggjað að ná þessu jöfnunarmarki og gaman að enda ferðina á því."

Davíð segir að það geri mikið fyrir sig persónulega að hafa náð svona góðri frammistöðu í leikjunum tveimur. Hann er 27 ára en er að stíga sín fyrstu skref í svona stóru hlutverki í landsliðinu og er nú kominn með níu landsleiki.

„Það var meiri ró yfir mér núna en í síðasta glugga. Það er allt annað að spila keppnisleiki en æfingaleiki og maður fann það persónulega. Ég ákvað að koma aðeins rólegri inn í þetta verkefni og gera bara það sem þjálfararnir vilja að ég geri, gera hlutina einfalt og skila mínu. Mér fannst það virka," segir Davíð.

Það er ástæða fyrir því að reynsla er ógeðslega mikilvæg
Meðalaldur íslenska liðsins hefur hækkað en þeir Aron Einar og Alfreð Finnbogason úr gullkynslóðinni voru mættir aftur í liðið. Þá var Guðlaugur Victor Pálsson einnig kominn aftur. Davíð segir það skipta miklu máli fyrir liðið að fá þessa reynslumiklu menn inn í hópinn.

„Það var geggjað. Þó ég sé ekki ungur þá er ég bara nýr í þessu. Það er gaman að sjá hvernig þessir menn undirbúa sig, þeir eru alltaf með spurningar klárar á fundum og vilja hafa allt á hreinu. Þeir spyrja bara hreint út meðan hinir yngri gera það kannski," segir Davíð.

„Fyrir mig persónulega var gaman að sjá hvernig þeir fara inn í leiki og hvað þeir ræða í hálfleik. Það er ástæða fyrir því að reynsla er ógeðslega mikilvæg og af hverju það er verið að sækja í reynslumikla leikmenn. Það gefur liðinu fullt, miklu meira en fólk heldur."

Hvernig var andinn í klefanum eftir að hafa náð að kreista þessu jöfnunarmarki inn í lokin? „Hann var bara frábær. Þetta verkefni gekk vel frá byrjun og þessi endir kórónaði það vel, að ná þessu jöfnunarmarki."

Viðtalið má heyra í heild sinni í útvarpsþættinum en þar ræðir Davíð meðal annars um lífið hjá Häcken í sænsku úrvalsdeildinni en þar er hann í stóru hlutverki.
Útvarpsþátturinn - Ísland, DKÓ, Besta og enski
Athugasemdir
banner