banner
   þri 05. nóvember 2019 23:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Eins og að horfa á Man Utd ef þeir hefðu Messi"
Lionel Messi.
Lionel Messi.
Mynd: Getty Images
Valverde er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona.
Valverde er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Barcelona.
Mynd: Getty Images
Úr markalausu jafntefli Barcelona gegn Slavia Prag á heimavelli.
Úr markalausu jafntefli Barcelona gegn Slavia Prag á heimavelli.
Mynd: Getty Images
Arsene Wenger, fyrrum stjóra Arsenal, líst ekki á blikuna hjá Barcelona.

Barcelona gerði í kvöld markalaust jafntefli gegn Slavia Prag á heimavelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Barcelona er á toppi F-riðils í Meistaradeildinni, og einnig á toppnum í spænsku úrvalsdeildinni, en þrátt fyrir það vilja stuðningsmenn þjálfarann Ernesto Valverde burt. Stuðningsmennirnir eru ekki sáttir með spilamennskuna undir hans stjórn.

Pressan er farin að aukast á Valverde.

„Þeir eru á toppi deildarinnar, þeir eru á toppi síns riðils, og þeir spila eins og lið sem er í krísu," sagði Wenger, en hann var sérfræðingur á BeIN Sports í kvöld.

„Þeir spila of hægt, of einstaklingsbundið. Í hvert skipti sem þeir tapa boltanum þá er eins og þeir muni fá á sig mark, þeir ráða ekki við hraðann hjá andstæðingnum. Þetta lið vantar orku, vantar sjálfstraust."

Franski knattspyrnustjórinn telur að Barcelona reiði sig of mikið á Lionel Messi.

„Barcelona hefur ríka sögu af stórkostlegri liðsframmistöðu, og svo kom Messi og bætti við það. Í dag er eins og það sé bara beðið eftir því að Messi geri eitthvað. Áður fyrr var músíkin frábær liðsframmistaða, erfitt að ná boltanum, og svo kom Messi ofan á það. Í dag er eins og þeir hafi misst sjarmann."

„Á endanum er þjálfarinn alltaf sekur, en hann er ekki alltaf ábyrgur fyrir hlutunum. Það er munur á því að vera sekur og ábyrgur," sagði Wenger.

„Valverde tekur ekki ákvarðanir um hvaða leikmenn koma inn. Hann verður að gera það besta úr því sem hann hefur. Það vekur upp margar spurningar: hver hefur lokaorðið þegar kemur að leikmannakaupum? Er það leikmaðurinn sem félagið þarf?"

„Þeir hafa aldrei leyst Xavi eða Iniesta af hólmi," sagði Wenger.

Eins og margir aðrir þá hreifst Jack Pitt-Brooke, blaðamaður The Athletic, ekki af Barcelona. Hann líkti Börsungum við Manchester United á Twitter, en United hefur verið í basli á þessari leiktíð og situr þessa stundina í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Horfi ekki mikið á La Liga (spænsku úrvalsdeildina) lengur, er Barcelona alltaf svona lélegt núna?" skrifaði hann.

„Ég veit að þetta hljómar eins og ég sé að grínast, en þetta er eins og að horfa á Manchester United ef þeir hefðu Messi."

Barcelona, topplið spænsku úrvalsdeildarinnar, tekur á móti Celta Vigo í næsta leik sínum á laugardagskvöld.


Athugasemdir
banner
banner
banner