þri 05. nóvember 2019 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðar Ari: Frábæru tímabili að ljúka
Algjör draumur að hafa hann Emil hérna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar í leik með FH gegn uppeldifélaginu.
Viðar í leik með FH gegn uppeldifélaginu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Pálsson í leik með FH. Emil leikur með Viðari hjá Sandefjord.
Emil Pálsson í leik með FH. Emil leikur með Viðari hjá Sandefjord.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Viðar Ari Jónsson gekk í raðir Sandefjord frá Brann í upphafi þessa árs. Viðar Ari fór árið 2017 til Brann frá uppelsdfélagi sínu, Fjölni.

Sandefjord hefur vegnað vel á leiktíðinni og er öruggt með næstefsta sætið í norsku OBOS-Ligaen, næstefstu deild í Noregi. Það sæti gefur liðinu keppnisrétt í efstu deild á komandi leiktíð.

Viðar Ari var lánaður árið 2018 til FH. Fótbolti.net hafði samband við hinn 25 ára gamla Viðar Ara og fór yfir stöðuna með hægri bakverðinum, byrjum á árinu 2017.

Gústi einn af bestu þjálfurunum
Þegar Viðar Ari fór til Brann, árið 2017, hrósaði hann Ágústi Gylfasyni, þjálfara sínum hjá Fjölni mikið. Fréttaritari spurði Viðar Ara hversu góður þjálfari Gústi væri. Viðar var spurður hvort hann teldi Gústa geta staðið sig vel erlendis sem þjálfari miðað við reynslu hans af öðrum þjálfurum.

„Ég á Gústa mikið að þakka og hann er einn besti þjálfari sem ég hef haft. Það var hann sem tók mig af kantinum og setti mig í bakvörðinn á sínum tíma, sem mér leist ekkert á, en kallinn virðist hafa haft rétt fyrir sér og líður mér vel í þeirri stöðu í dag."

„Það má klárlega segja að hann hafi verið mikilvægur hlekkur í öllu þessu félagsskiptaferli á sínum tíma, og við höldum góðu sambandi. Ég tel að Gústi myndi standa sig vel sem þjálfari hvar sem er, eins og hann hefur gert heima."


Valinn í landsliðið 2017
Viðar Ari var valinn í landsliðið árið 2017 fyrir janúarverkefni liðsins. Viðar var spurður hvort að það val hafi hjálpað honum að koma sér í atvinnumennskuna á sínum tíma.

„Að sjálfsögðu hjálpa landsliðsverkefni alltaf til við félagsskipti. Verkefnið í Janúar 2017 gekk mjög vel hjá mér og í kjölfarið fékk ég kallið í næsta landsliðsverkefni líka sem var í undankeppni fyrir HM. Það eru skemmtilegustu símtölin að fá tilkynninguna að þú sért í landsliðshóp og auðvitað vonast ég til þess að komast aftur í hópinn sem fyrst."

„Mér hefur gengið mjög vel á tímabilinu með Sandefjord, og spilað nánast alla leiki sem hægri bakvörður. Ég er því í flottu formi fyrir hvaða verkefni sem er."


Stórt stökk frá Fjölni í Brann
Viðar fékk takmarkaðar mínútur með Brann sem leikur í efstu deild í Noregi. Viðar var beðin um að gera upp tímabilið 2017 hjá félaginu. Viðar var orðaður við FH um sumarið árið 2017 og var hann einnig spurður um þær sögusagnir.

„Stökkið frá Fjölni í Brann var mikið. Eins og gengur og gerist tekur tíma að komast inní allt hjá nýju liði og í nýju landi. Ég fékk svo tækifærið í leik á móti Sandefjord, og kem inná og skora sem var frábært. Eftir það spila ég nokkra góða leiki. Gengi liðsins var sveiflukennt þar á eftir og breytingar voru gerðar eins gengur og gerist hjá stóru félagi eins og Brann er."

„Á þessum tíma vorum við þrír í sömu stöðu hjá Brann og ég þurfti að verma bekkinn, sem var langt frá því að vera skemmtilegt. Varðandi FH þá var ég í rauninni aldrei á leiðinni heim sumarið 2017, stefnan var alltaf að sanna mig með Brann og verða fastamaður í liðinu sem fyrst."


Leið eins og hann væri fyrsti kostur fyrir tímabilið 2018
Viðar var spurður hvernig hann sá stöðu sína hjá Brann snemma árs 2018 og hvenær FH hefði komið til sögunnar en Viðar var lánaður þangað fyrir tímabilið.

„Ég átti gott undirbúningstímabil með Brann fyrir tímabilið 2018 og leið mér alltaf eins og ég væri fyrsti kostur í mína stöðu. Allt undirbúningstímabilið erum við með einum of marga erlenda leikmenn í liðinu, og því vitað að einn útlendingur væri ekki á listanum fyrir komandi tímabil."

„Vegna meiðsla í ákveðnum stöðum á velllinum er allt of seint tekin ákvörðun um það hver yrði ekki á listanum, og þá hafði markaðurinn lokað á flestum stöðum, en var opinn á Íslandi."

„Það var þá besti kosturinn fyrir félagið að losa mig þangað. Þá var FH efst á lista hjá mér og var ég spenntur að fá Óla Kristjáns sem þjálfara. Ég ætlaði að koma heim og verða bestur í deildinni og fara svo út í júlí glugganum og vera fyrsti kostur í hægri bakvörðinn hjá Brann."


Lærdómsríkt tímabil hjá FH
Gengi FH var ekki sérstakt, miðað við fjórtán árin á undan, tímabilið 2018. Liðið fékk talsverða gagnrýni og missti af Evrópusæti. Viðar var spurður út í gagnrýnina á liðið og hann sem leikmann liðsins það tímabilið.

„Tímabilið með FH var lærdómsríkt. Sum gangrýni átti fullan rétt á sér, en já ég viðurkenni að stundum fannst mér hún ósanngjörn. Það voru mikil tímamót og breytingar í gangi hjá FH eins og menn vita og ég veit vel að þeir eiga eftir að komast í sitt gamla form fljótt með sína góðu aðstæðu og umgjörð."

„Auðvitað var þetta ekkert drauma sumar miðað við persónulegt gengi og einnig hjá liðinu, en þetta fékk mig til þess að langa ennþá meira út í atvinnumennsku sem fyrst því ég vissi að ég átti nóg innni sem fótboltamaður. Ég tók því bara jákvæðu punktana úr þessu öllu saman og pæli ekki of mikið í hinu."


Vildi verða lykilmaður
Viðar gekk í raðir Sandefjord sem leikur í næstefstu deild Noregs eftir tímabilið á láni hjá FH. Viðar var spurður út í vistaskiptin, voru einhver önnur félög sem komu til greina? Einhver íslensk félög?

„Ég reiknaði með því að koma aftur um mitt sumar til Brann, en þegar leið á tímabilið og þeim gekk vel þá fór maður að hlera stöðuna og þegar komið var á hreint að ég myndi klára tímabilið með FH fór ég aðeins að skoða í kringum mig."

„Mig langaði númer eitt að halda áfram að spila erlendis. Mér fannst næsta skref vera mjög mikilvægt og vildi fara í félag þar sem ég passaði inní spilamennskuna og yrði lykilmaður."

„Eftir símtal við þjálfara Sandefjord kom eiginlega ekkert annað til greina, fann það strax að við myndum vinna vel saman, sem við svo gerðum."

„Það var meðal annars áhugi frá bæði Svíþjóð og Póllandi en Sandefjord heillaði mest og ég sé ekki eftir því skrefi. Það voru engin íslensk félög sem komu til greina á þeim tímapunkti."


Mjög sáttur með sumarið
Viðar var næst beðinn um að gera upp sumarið hjá Sandefjord bæði frá sinni persónulegu hlið sem og hjá félaginu.

„Nú er flott tímabil að klárast og markmiðinu náð. Stefnan hjá liðinu var alltaf klár og það var að fara upp um deild. Mín frammistaða í ár hefur verið mjög góð og ef ég lít til baka er ég mjög sáttur með sumarið, bæði persónulega og með liðinu."

„Liðið spilaði einn besta boltann í deildinni, þó ég segi sjálfur frá, og mjög góð tilfinning að vera svona stór partur af því."


Hafði samband við meistarann Emil Pálsson
Emil Pálsson gekk í raðir Sandefjord fyrir síðasta timabil og Viðar var spurður út í hvort hann hefði heyrt í Emil og hvernig væri að vera með honum í liði.

„Já ég heyrði stax í Emil þegar Sandefjord kom upp á borðið. Hann talaði mjög vel um allt hjá félaginu og sérstaklega hve góðir þjálfararnir væru, sem var 100% rétt hjá honum."

„Það hefur verið algjör draumur að hafa hann hér úti, virkilega þægilegt að komast inn í hlutina og síðan er gæinn bara algjör meistari, sem skemmir ekki fyrir."


Varð faðir í haust - Lífið leikur við hann og kærustuna
Viðar Ari lítur glaður til baka á tímabilið og segir að það eina sem vanti upp á til að kóróna tímabilið sé að vera valinn aftur í landsliðshóp. Þá sagði Viðar frá því að hann og kærasta hans hafi eignast son í haust. Að lokum var Viðar spurður út í framhaldið á sínum ferli.

„Sumarið hefur verið í raun engu líkt, bæði utan vallar sem og innan. Markmiðinu náð og ofan á alla fótboltagleðina þá eignuðumst ég og kærasta mín lítinn strák í haust og því má segja að lífið leiki við okkur hér í Sandefjord, eina sem vantar er landsliðskallið!"

„Ég reikna með að vera áfram hjá Sandefjord og þá er næst á dagskrá undirbúningur fyrir undirbúningstímabil og hver veit nema við förum alla leið á næsta ári!"

„Mér líður mjög vel hér og það verður gaman að spila með liðinu í efstu deild á næsta ári. Það þyrfti að koma gott tilboð til þess að ég færi frá Sandefjord,"
sagði Viðar Ari að lokum.

Sandefjord endar í næstefsta sæti deildarinnar og leikur í efstu deild á komandi tímabili. Ein umferð er eftir af deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner