fim 06. janúar 2022 23:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Mikið búið að ganga á og erfitt að segja frá öllu"
Erfitt að finna stöðugleika í nýju liði þegar þú ert að spila út um allt
Erfitt að finna stöðugleika í nýju liði þegar þú ert að spila út um allt
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar tímabilið 2020.
Var einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar tímabilið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Valdimar lék ellefu leiki með U21 árs landsliðinu og var í lokahópnum í lokakeppninni í fyrra.
Valdimar lék ellefu leiki með U21 árs landsliðinu og var í lokahópnum í lokakeppninni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Leifs (Valdimar fyrir aftan)
Ari Leifs (Valdimar fyrir aftan)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valdimar Þór Ingimundarson mun væntanlega yfirgefa raðir Strömsgodset fyrir komandi tímabil. Valdimar er Árbæingur sem gekk í raðir norska félagsins haustið 2020 og byrjaði mjög vel hjá félaginu - var í stóru hlutverki og örin græn.

Þessi 22 ára sóknarsinnaði miðjumaður var besti leikmaður Fylkis tímabilið 2020 og kom fáum á óvart að hann fór í atvinnumennsku um haustið.

Valdimar skrifaði undir þriggja ára samning og á eitt og hálft ár eftir af þeim samningi. Tímabilið 2021 var ekki jafn gott fyrir Valdimar. Þjálfaraskipti urðu fyrir tímabilið, þáverandi þjálfari sakaður um fordóma og ákvað félagið að láta hann fara. Valdimar kom við sögu í fimmtán af þrjátíu leikjum Godset á tímabilinu, í byrjunarliðinu fjórum sinnum og lagði upp eitt mark.

Í gær var greint frá því að þrjú félög hefðu boðið í Valdimar, tvö þeirra íslensk og eitt í næstefstu deild í Svíþjóð.

Erfitt að finna stöðugleika ef maður er út um allt
Fótbolti.net ræddi við Valdimar í dag og spurði hann út í stöðu mála.

„Ég er bara að skoða mína möguleika og vonandi finn ég lið sem ég tel mig geta spilað í og er rétt fyrir mig. Þetta hefur ekki bara snúist um spilatíma, aðallega hvernig ég hef verið notaður. Ég hef verið að spila út um allan völl og það er erfitt að finna stöðugleika í nýju liði þegar þú ert að spila út um allt," sagði Valdimar.

Snýst um að njóta
Hvað er það sem þig langar að gera? „Mig langar bara fyrst og fremst að njóta þess að spila fótbolta - hvort það sé heima eða úti."

Kannski erfitt að segja frá öllu
Hvernig var upplifunin á þessu tímabili?

„Það er mikið búið að ganga á og kannski erfitt að segja frá öllu. Bæði það að ég var ekki sáttur með hvernig ég var notaður en að sjálfsögðu hefði ég alveg getað gert mikið betur úr þessu og fengið að spila meira."

Sá leikmaður sem var að spila í þinni bestu stöðu, hvernig var hann að standa sig? „Leikmaðurinn sem er að spila í svona áttu eða tíu hlutverki er mjög flottur spilari en hann eins og liðið var svona upp og niður."

Spáð falli
Liðið endaði í 9. sæti, tíu stigum fyrir ofan fallsvæðið. Var tímabilið ásættanlegt miðað við væntingar Godset? „Já, ég myndi seigja það miðað við allt sem gekk á fyrir tímabilið. Held að okkur hafi verið spáð falli."

Náði ekki að vinna sig inn hjá nýja þjálfaranum
Hvernig hefur þessi tími í Noregi verið í heild sinni - og hvað breyttist milli tímabila? „Tíminn í Noregi hefur verið skemmtilegur og tel ég mig hafa þroskast mjög mikið sem einstaklingur úti. Þjálfarinn sem keypti mig var rekinn rétt fyrir tímabilið og ég náði bara ekki að vinna mig inn hjá nýja þjálfaranum."

Gekk ekki upp að fara síðasta sumar
Þú varst á Íslandi síðasta haust, varstu nálægt því að koma á láni til Íslands? „Við fengum smá frí í ágúst ef ég man þetta rétt. Ég fór bara að horfa a mína menn spila og styðja við þá. Ég var nálægt þvi að fara frá Godset um sumarið en það gekk ekki eftir." Frá 11. umferð til þeirrar 17. spilaði Valdimar ekki mínútu og var tvisvar sinnum utan hóps, það var á þeim tíma sem hann var nálægt því að fara frá norska félaginu.

Veist þú persónulega hvaða lið eru að bjóða í þig núna og vilja fá þig í sínar raðir? „Mig svona grunar það."

Heiður að vera valinn - Virkilega ánægður fyrir hönd Ara
Valdimar var í vikunni valinn í A-landsliðið sem mætir Suður-Kóreu og Úganda í vináttuleikjum. Hvernig var að fá kallið í A-landsliðið? „Það er heiður að vera valinn í þennan hóp og tel ég að þetta muni gera gott fyrir mig upp á framhaldið."

Ari Leifsson er liðsfélagi Valdimars hjá Godset og lék hann stórt hlutverk á liðinni leiktíð. Ari er einnig í A-landsliðshópnum fyrir komandi verkefni. Hvernig hefur verið að fylgjast með uppgangi Ara? „Ég er virkilega ánægður fyrir hönd Ara. Það er gaman að sjá þegar vinur manns er að gera góða hluti."

Má ekki aðeins spegla ykkar stöðu - fyrst var hann á bekknum en vann sig inn á þessu tímabili og öfugt með þig? „Jú jú, það má alveg líkja þessu eitthvað saman," sagði Valdimar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner