þri 06. apríl 2021 14:30
Elvar Geir Magnússon
Tuchel: Það hitnaði í kolunum en málinu var lokið eftir æfingu
Rudiger og Tuchel á æfingasvæðinu.
Rudiger og Tuchel á æfingasvæðinu.
Mynd: Getty Images
Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, segir að það hafi verið heitt í kolunum á æfingu á sunnudag. Upp úr sauð milli varnarmannsins Antonio Rudiger og markvarðarins Kepa Arrizabalaga eins og greint hefur verið frá.

Daginn áður hafði Chelsea tapaði illa 2-5 fyrir West Brom en Tuchel segir að barátta á æfingasvæðinu hafi búið til lætin en ekki úrslitin.

Leikmennirnir ýttu hvor öðrum og Rudiger var sendur inn af æfingunni þar sem hann átti erfitt með að róa sig.

„Við þurftum að bregðast við og skerast í leikinn, þetta var alvarlegt. En þeir hreinsuðu loftið samstundis og allt var í himnalagi milli þeirra daginn eftir," segir Tuchel.

„Það hitnaði í kolunum en kólnaði fljótt aftur. Viðbrögðin voru ekki í lagi en hvernig þeir tveir höndluðu svo aðstæður var ótrúlegt og sýndi hversu mikla virðingu þeir bera fyrir hvor öðrum."

Tuchel segir að málinu sé lokið og leikmönnunum verði ekki refsað, þeir hefðu klárað þetta sín á milli.

„Eftir æfinguna þá kláruðu þeir þetta mál með hreinskilni, auðmýkt og beinskeytni. Það sýndi mér að þeir eru góðir karakterar. Toni hreinsaði loftið strax og sýndi hversu sterkur hann er andlega."

Mateo Kovacic, miðjumaður Chelsea, segir að stympingarnar hafi ekki verið stórmál.

„Svona gerist hjá fjölskyldum og við erum sterkur hópur. Við ræddum þetta og málinu er lokið," segir Kovacic en hann og Tuchel ræddu við fjölmiðla í aðdragandanum að Meistaradeildarleik gegn Porto annað kvöld. Það verður fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum.
Athugasemdir
banner
banner
banner