mán 06. desember 2021 09:15
Elvar Geir Magnússon
Fyrrum Selfyssingur hefur verið eftirlýstur í 194 löndum í tvö ár
Babacar Sarr í leik með Selfossi.
Babacar Sarr í leik með Selfossi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alþjóðalögreglan Interpol hefur leitað að Babacar Sarr í rúmlega tvö ár. Hinn þrítugi Sarr er frá Senegal en hann spilaði með Selfyssingum árið 2011 og 2012 þar sem hann vakti athygli félaga á Norðurlöndunum.

Ekkert er vitað hvar Sarr er niðurkominn í dag en allt bendir til þess að hann sé í felum og á flótta undan réttvísinni.

Sarr spilaði með Molde, Sogndal og Start í Noregi eftir Íslandsdvölina. Hann lék meðal annars undir stjórn Ole Gunnar Solskjær sem fékk hann til Molde.

Nokkrum sinnum á tíma sínum í Noregi var hann sakaður um að hafa nauðgað konum. Málin hrönnuðust upp.

Sarr lét sig hverfa frá Noregi og spilaði í skamman tíma með Yenisey Krasnoyarsk í Rússlandi og síðast gekk hann í raðir Damac FC í Sádi-Arabíu. Hann lék fjórtán leiki fyrir félagið áður en samningi hans var rift. Síðan hvarf Sarr algjörlega af radarnum.

Sarr bíða dómar fyrir nauðganir en ekki hefur tekist að ná í hann og hann ekki mætt fyrir dóm. Interpol leitar hans og sendi út svokallaða rauða tilkynningu. Lögreglan í 194 löndum er beðin um að handtaka Sarr ef hann verður á vegi þeirra og framselja hann svo til Noregs.

Dagbladet í Noregi er með ítarlega umfjöllun um leitina að Sarr en þar er velt því fyrir sér hvort hann sé enn í Sádi-Arabíu eða hafi mögulega flúið heim til Senegal og sé þar í felum í dag. Blaðið hefur ekki fengið nein svör frá Damac FC við fyrirspurnum um af hverju samningi Sarr var rift og þá hefur fótboltasamband landsins heldur ekki svarað.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner