mán 06. desember 2021 09:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Litla pressan á þann mæta svein"
Orri Hrafn Kjartansson.
Orri Hrafn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri er í U21 landsliðinu.
Orri er í U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Hrafn Kjartansson gekk í raðir Vals í síðustu viku. Orri er nítján ára miðjumaður - getur einnig leikið á kanti - sem uppalinn er hjá Fylki og hefur einnig leikið með unglingaliðum Heerenveen í Hollandi.

Orri féll með Fylki á komandi tímabili og sagði í viðtali við Fótbolta.net í október það hafa verið mikil vonbrigði.

Orri skrifaði undir fjögurra ára samning við Val og eru sögur um að kaupverðið á honum sé það stærsta í sögunni á milli félaga innanlands. „Valur hefur verið að eltast við hann lengi og buðu nokkrum sinnum í hann. Fylkir hefur hafnað þeim boðum, hægri vinstri. Nú loksins komu þeir með eitthvað alvöru boð og skilst mér að það sé hæsta boð hérna innalands," sagði Albert Brynjar Ingason, sóknarmaður Fylkis, í hlaðvarpinu Dr Football.

Rætt var um að þessar sögur myndu varpa mikilli pressu á Orra í nýju félagi.

„Litla pressan á þann mæta svein," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum. „Hvað er hátt kaupverð í íslensku deildinni? Fimm milljónir?"

„Nokkrar milljónir er mjög hátt á markaðnum á Íslandi," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Segjum að hann sé einn af þeim sem er að fara á norður af fimm milljónum, norður af sex eins og maður var eitthvað farinn að heyra. Hann er hrikalega efnilegur og góður í fótbolta. Hann féll samt með Fylki... en var vissulega í hörmulega fótboltaliði. Það eru fleiri leikmenn sem féllu sem eru komnir upp. Íslands- og bikarmeistararnir (Víkingur R.) tóku leikmenn sem voru í B-deild eða að falla niður," sagði Tómas og hélt áfram.

„Hann er væntanlega að fara í burðarhlutverk í tiltölulega mikilli endurskipulagningu hjá langríkasta fótboltaliði landsins."

„Hann er bara 19 ára þessi strákur; það er margt í honum. En við höfum rætt þetta áður - við erum að fara í stærri deild og stærri félögin vilja breiðari hópa. Íslenski markaðurinn hefur upp á rosalega lítið að bjóða. Hann er að fá þetta tækifæri og Dagur Dan (Þórhallsson), sem féll líka, er kominn í Breiðablik. Við sjáum kaupin sem KR-ingar gera. Þetta er aðeins umhverfi núna en venjulega," sagði Elvar.

Upphæðir um leikmannakaup eru ekki gerðar opinberar á Íslandi. Því hafa þessar sögur komið upp.

„Dagur Dan flytur sig bara á milli... hann (Orri) er 19 ára og hefur lítið sýnt okkur. Hann er dýrasti leikmaður deildarinnar. Það skiptir engu máli hvort það sé satt eða ekki. Þetta er farið út í kosmósið. Það er búið að segja þetta og eins og íslenska umræðan um fótbolta er, þá var þetta sagt og þá bara er þetta," sagði Tómas.

Það verður áhugavert að sjá hvernig Orri kemur inn í Valsliðið, sem olli vonbrigðum síðasta sumar og náði ekki Evrópusæti.
Útvarpsþátturinn - Ferðalag til Englands, Jón Daði og Víkingar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner