Börsungar vilja varnarmann Bournemouth - Man Utd vill tvo leikmenn - Igor Thiago til Liverpool?
   mið 24. desember 2025 17:00
Brynjar Ingi Erluson
Sendi Isak afsökunarbeiðni - „Ekki ætlun mín að meiða hann“
Mynd: EPA
Hollenski miðvörðurinn Micky van de Ven sendi sænska framherjanum Alexander Isak afsökunarbeiðni eftir að hafa brotið á honum ökklann í leik Tottenham og Liverpool um helgina.

Isak átti erfitt uppdráttar með Liverpool eftir að hafa komið til félagsins fyrir metfé undir lok sumargluggans og aðeins skorað eitt deildarmark fram að leiknum gegn Tottenham.

Allt Liverpool-liðið var ekki upp á sitt besta og Isak því ekki einn um að spila undir getu. Hann skoraði gegn Tottenham eftir sendingu frá Florian Wirtz og sáu stuðningsmenn þar glitta í leikmanninn sem hafði raðað inn mörkum með Newcastle síðustu ár, en sú gleði varði ekki lengi því þegar hann skoraði markið meiddist hann illa.

Van de Ven reyndi að bjarga marki með tæklingu, en meiddi Isak í leiðinni sem þurfti að fara í aðgerð og er ljóst að hann verður frá í nokkra mánuði.

Arne Slot, stjóri Liverpool, sagði tæklingu landa síns glæfralega á meðan Thomas Frank, stjóri Tottenham, kom sínum manni til varnar, en Van de ven segir það aldrei hafa verið ætlun sína að meiða Isak.

„Ég sendi honum skilaboð því ég vildi ekki meiða hann eða gera neitt til þess að særa hann. Ég vildi bara koma í veg fyrir skotið en þetta var allt saman mjög óheppilegt hvernig hann lenti á milli fóta hjá mér þannig ég sendi honum skilaboð eftir leikinn og óskaði honum alls hins besta. Vonandi sé ég hann bráðlega aftur á vellinum. Hann svaraði mér og var þakklátur fyrir skilaboðin,“ sagði Van de ven.
Athugasemdir
banner
banner
banner