Börsungar vilja varnarmann Bournemouth - Man Utd vill tvo leikmenn - Igor Thiago til Liverpool?
   mið 24. desember 2025 16:54
Brynjar Ingi Erluson
Afríkukeppnin: Mahrez sló markametið í öruggum sigri Alsíringa
Riyad Mahrez er markahæsti leikmaður Alsír í Afríkukeppninni
Riyad Mahrez er markahæsti leikmaður Alsír í Afríkukeppninni
Mynd: EPA
Alsír 3 - 0 Súdan
1-0 Riyad Mahrez ('2 )
2-0 Riyad Mahrez ('61 )
3-0 Ibrahim Maza ('85 )
Rautt spjald: Salaheldin Alhassan ('39, Súdan)

Riyad Mahrez er markahæsti leikmaður í sögu Alsír í Afríkukeppninni en hann setti metið með því að skora tvö mörk í 3-0 sigri á Súdan í E-riðli keppninnar í Rabat í Marokkó í kvöld.

Fyrrum Man City-maðurinn var ekki lengi að koma Alsír yfir en hann skoraði eftir rúma mínútu. Hicham Boudaoui átti þessa laglegu hælsendingu í teignum og á Mahrez sem stýrði boltanum með innanfótarskoti í vinstra hornið.

Salaheldin Alhassan, miðjumaður Súdan, var ekki að gera sínu landsliði neina greiða í leiknum. Hann sá gult á 14. mínútu og sitt annað gula á 39. mínútu fyrir klaufalega tæklingu Rayan Ait Nouri, leikmanni Man City.

Mahrez setti síðan metið á 61. mínútu eftir stórkostlega utanfótarsendingu Mohamed Amoura. Þetta var áttunda mark hans í Afríkukeppninni og er hann nú markahæsti maður Alsír í sögu keppninnar.

Þetta gerði hann fyrir framan fulla stúku en þar mátti glitta í goðsögnina Zinedine Zidane sem er ættaður frá Alsír, en báðir foreldrar hans koma þaðan.

Varamaðurinn Ibrahim Maza rak síðan síðasta naglann í kistu Súdana með föstu skoti úr teignum eftir að Baghdad Bounedjah skallaði boltann fyrir Maza sem var að skora sitt fyrsta A-landsliðsmark.

Öruggt hjá Alsír sem er á toppi E-riðils eftir fyrstu umferðina en Búrkína Fasó í öðru með slakari markatölu. Alsír mætir Búrkína Fasó í næstu umferð á meðan Súdan spilar við Miðbaugs Gíneu.
Athugasemdir
banner
banner