Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 07. febrúar 2020 11:00
Magnús Már Einarsson
Fór í hjartastopp á leikskóla - „KA-maður hefði aldrei lifað þetta af"
Ármann Pétur Ævarsson.
Ármann Pétur Ævarsson.
Mynd: Haukur Gunnarsson
ÁRmann Pétur í leik með Þór síðastliðið sumar.
ÁRmann Pétur í leik með Þór síðastliðið sumar.
Mynd: Raggi Óla
Ármann Pétur fagnar marki í leik með Þór árið 2013.
Ármann Pétur fagnar marki í leik með Þór árið 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ármann Pétur í baráttunni.
Ármann Pétur í baráttunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ármann Pétur Ævarsson, leikjahæsti leikmaður Þórs, lagði skóna á hilluna síðastliðið haust eftir langan og farsælan feril. Hinn 35 ára gamli Ármann Pétur ákvað síðastliðið vor að tímabilið yrði hans síðasta og kveðjuleikur hans var gegn Magna í lokaumferð Inkasso-deildarinnar í september síðastliðnum.

„Það var frekar súrsætt að leggja skóna á hilluna. Það má segja að maður hafi vitað að þetta væri ekki eilíft verkefni þó svo að það væri auðvitað best ef svo væri. Ég var mjög ánægður og þakklátur fyrir öll þessi ár og að sjálfsögðu að fá að taka þessu ákvörðun sjálfur að nú hafi verið komið nóg. Það var nokkrum sinnum á ferlinum nefnilega sem maður hélt að allt væri búið en sem betur fer komst maður aftur í skóna. Þannig að þetta var erfið ákvörðun en kominn tími til og sjálfsagt margir mjög fegnir," sagði Ármann Pétur léttur í bragði við Fótbolta.net í dag.

Hringt á sjúkrabíl í æfingaferðinni
Eftir tímabilið lenti Ármann Pétur í atviki sem breytti lífi hans til frambúðar. Ármann Pétur hafði kennt sér meins í talsverðan tíma áður en hann fékk hjartaáfall þegar hann var að skutla stráknum sínum á leikskóla á Akureyri.

„Maður fékk verðugt verkefni úr ólíklegustu átt í hendurnar," sagði Ármann Pétur við Fótbolta.net þegar hann ræðir um atvikið. „Þetta byjaði allt í febrúar 2018 eða eftir að ég fékk svæsna lungnabólgu sem ég losnaði ekki við fyrr en ég fékk sýklalyf í æð og lá inná spítala í nokkra daga. Það var s.s eftir það sem ég fór að finna fyrir verkjum frá brjóstkassa og upp með æðunum í hálsinn við hækkandi púls en það sem var furðulegast við það að þetta kom bara stundum."

„Ég fór svo í æfingaferðina í byrjun apríl og var að ég hélt búinn að ná mér á fullu. Einn morguninn í ferðinni fór ég í morgunmat og byrjaði að finna einhverja verki, ég dofnaði allur upp og settist niður og hringt var á sjúkrabíl, íslenskur læknir var sem betur fer með í för sem hlúði að mér og eftir um 20 mínútur gekk þetta yfir, þá var sjúkrabíllinn ekki enn kominn. Talið var að ég hefði farið of fljótt af stað eftir lungnabólguna og hitanum og æfingum um kennt að fór svona. Læknirinn vildi samt að ég færi í fleiri rannsóknir þegar heim kom."


Í hjartastopp á leikskóla
Ármann fann áfram fyrir verkjum af og til en hann hélt áfram að spila og æfa fótbolta með Þór.

„Inn á milli gat ég æft og spilað fulla leiki eins og ekkert væri. Konan rak mig samt alltaf uppá sjúkrahús þegar ég fann fyrir þessu til að athuga hvort það væri ekki hægt að finna eitthvað út úr þessu en allt kom fyrir ekki, ég fór í hjartaómun, kransæðarannsókn og fleira. Allt var eins og best var á kosið. Engin skýring fannst. Ég náði að klára tímabilið og leggja skóna á hilluna á mínum forsendum, þó auðvitað hefði ég viljað klára þetta með að komast upp um deild."

„Svo gerist það mánudaginn 18.nóvember að ég er að skutla konu og börnum í vinnu og skóla og þegar ég er í síðasta leggnum að fara með yngsta strákinn á leikskóla fer ég að finna fyrir smá verk, ég fer með strákinn inn og skila honum af mér en verkurinn magnast, verkur sem ég hef fundið fyrir oft áður og alltaf gengið til baka, ég fer inn í eldhús á leikskólanum og ætlaði að fá saltvatn sem hafði virkað fyrir mig áður einhverra hluta vegna, frábæra starfsfólkið þar var farið að kannast við mig og mín einkenni en í þetta skiptið þegar ég tjái þeim að þetta sé gengið yfir stend ég upp úr stólnum sem ég settist alltaf á hjá þeim og það síðasta sem ég man eftir mér er þegar ég skell í gólfinu."

„Þarna á eldhúsgólfinu á leikskólanum var ég búinn að missa meðvitund og byrjaður í krampa sem endaði með hjartastoppi ca 1 mín síðar. Mér til mikillar lukku þá var sjúkraflutningafólkið við æfingar í næsta húsi og því fljótt á staðinn. Ég var hnoðaður í gang en fer svo aftur í hjartastopp í sjúkrabílnum þar sem ég var stuðaður í gang. Ég var fluttur á gjörgæsludeild hérna á Akureyri þar sem ég var kældur í 32 gráður og haldið sofandi í öndunarvél."


„KA-maður hefði aldrei lifað þetta af"
Við tók óvissa hjá fjölskyldu og vinum Ármanns en hann vaknaði síðan daginn eftir og við betri heilsu en margir þorðu að vona.

„Eftir rúman sólarhring þar sem fólkinu sem stendur mér næst var tjáð að óvíst væri hvernig ég kæmi til baka, vaknaði ég og spurði Rakel mína hvað hefði komið fyrir, hún tjáði mér hvað hefði gerst og ég svaraði henni "fyrirgefðu elskan."

„Stuttu síðar segi ég við hana "Rakel, ég er svo feginn að vera Þórsari", "nú, afhverju" spyr hún, þá svaraði ég "KA-maður hefði aldrei lifað þetta af". Þarna vissi hún strax að ég væri kominn aftur, DFK,"
segir Ármann brosandi og vísar í einkennisorð Þórsara sem eru „deyja fyrir klúbbinn."

„Það sem fylgdi í kjölfarið var að ég var fluttur suður með sjúkraflugi nokkrum dögum síðar og þar tóku við margar rannsóknir og ekkert fannst. Ég fékk því bjargráð græddan í mig sem veitir mér og mínum mikið öryggi."

Vælir ekki yfir að missa af Pollamótinu
Núna tveimur og hálfum og mánuði síðar er Ármann Pétur á góðum batavegi. Ljóst er þó að hann mun aldrei spila fótbolta aftur.

„Heilsan í dag finnst mér alltaf verða betri og betri. Þrekið var auðvitað lítið eftir svona "rússíbanaferð". Vinnuveitandi minn og samstarfsfólk hjá STEFNU er svo magnað og skilningsríkt, þannig að ég mætti strax eftir áramót í vinnu og fékk að stjórna álaginu bara alveg sjálfur. Er ekki alveg kominn í fullan vinnudag ennþá en það styttist. Svo ég get ekki kvartað hvað allt hefur gengið vel eftir þetta áfall. Það sem er kannski verst í þessu að núna er alfarið búið að taka frá manni að rífa skóna úr ruslinu, eða spila á Pollamótinu þar sem ég má aldrei fara í fótbolta aftur. Ég ætla ekki að væla yfir því samt, ég er á lífi og það skiptir öllu máli," sagði Ármann Pétur að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner