Gonzalo Garcia gæti verið lánaður til Brighton frá Real Madrid - Man Utd vill sænskan táning - Liverpool leiðir kapphlaupið um Semenyo
   mið 19. nóvember 2025 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Neymar er í myndinni hjá Ancelotti - „Hann hefur sex mánuði“
Mynd: EPA
Carlo Ancelotti, þjálfari brasilíska landsliðsins, segist ekki ætla að útiloka það að Neymar verði í lokahóp landsliðsins sem tekur þátt á HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Neymar, sem er 33 ára gamall, samdi aftur við Santos á síðasta ári, en endurkoma hans í brasilíska fótboltann hefur ekki verið eins og hann hafði séð fyrir sér.

Aldurinn er farinn að segja til sín og aðallega líkaminn sem virðist vera að gefa sig. Hann er ekki sami leikmaður og hann var, en Ancelotti vill þó ekki útiloka það að Neymar verði í hópnum á næsta ári.

„Ég hélt að Neymar væri bara í umræðunni í Brasilíu, en þetta er greinilega alheims vandamál. Það góða er að hann er búinn að jafna sig af meiðslum og nú hefur hann sex mánuði til að spila sig í form. Brasilíska deildin klárast 7. desember og þá getur hann tekið sér frí og getur síðan eftir það byrjað að sýna gæði sín aftur í deildinni og komið sér í betra form,“ sagði Ancelotti.

Neymar og Santos eru í fallbaráttu í brasilísku úrvalsdeildinni og var hann ekki valinn í landsliðið í þessum glugga, en erlendir miðlar hafa talað um að hann gæti þurft að fara annað til þess að eiga möguleika á að koma sér aftur í landsliðið.

„Neymar er á lista þeirra leikmanna sem gætu farið á heimsmeistaramótið. Hann hefur sex mánuði til að koma sér í lokahópinn. Við verðum að fylgjast með honum og öðrum leikmönnum svo við gerum ekki mistök þegar við veljum hópinn,“ sagði ítalski þjálfarinn enn fremur.

Neymar er markahæsti leikmaður í sögu brasilíska landsliðsins með 79 mörk.
Athugasemdir
banner
banner