Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 07. apríl 2020 21:34
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rússar og Katarar hafna ásökunum um útdeilingu á mútum
Mynd: Getty Images
Forráðamenn frá knattspyrnusamböndum Rússlands og Katars neita ásökunum um að hafa útdeilt í tengslum við það þegar FIFA komst að þeirri niðurstöðu fyrir um tíu árum síðan að halda Heimsmeistaramótið í löndunum.

HM var haldið í Rússlandi árið 2018 og er stefnt á það að halda mótið að vetri til í Katar árið 2022.

Í gær sögðu lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum að Rússland og Katar hefðu boðið og borgað mútur til að tryggja sér atkvæði frá fulltrúum FIFA þegar átti að velja um hvaða lönd ættu að halda HM.

Því er haldið fram að Ricardo Teixeira, fyrrum forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, og Nicolas Leoz, fyrrum formaður knattspyrnusambands Suður-Ameríku sem er núna látinn, hafi þegið mútur til að gefa Katar atkvæði sitt.

Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA, er ásakaður um að hafa fengið allt að 5 milljónir Bandaríkjadollara til að kjósa Rússland fyrir HM 2018. Þá er Rafael Salguero, fyrrum formaður knattspyrnusambands Gvatemala, ásakaður um að hafa þegið 1 milljón dollara til að kjósa Rússland.

FBI, alríkislögreglan í Bandaríkjunum, hefur lengi rannsakað spillingu innan FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, en aldrei áður hefur það verið lagt fram í eins miklum smáatriðum hvernig meintri spillingu var háttað. Það er möguleiki að þetta gæti haft áhrif á HM 2022 í Katar.

Rússar og Katarar neita allri sök. Dmitry Peskov, talsmaður Kremlín, sagði einfaldlega: „Rússar fengu réttinn á að halda HM á algjörlega löglegan máta. Rússland hélt besta HM í sögunni."

Katarar segjast hafa farið eftir löglegum leiðum og ætlar að berjast harðlega gegn þeim sem segja annað.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner