
Breiðablik vann ellefta leik sinn í Bestu deild kvenna á tímabilinu er liðið gjörsigraði Fram, 6-1, á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í kvöld, en á sama tíma unnu Valskonur 2-1 útisigur á Þór/KA og þá var Stjarnan ekki í vandræðum með Tindastól í Garðabæ.
Blikar hafa verið á eldi á leiktíðinni og fátt sem kemur í veg fyrir að liðið verði meistari annað árið í röð.
Gestirnir komu yfir eftir umdeilt víti á 9. mínútu sem Samantha Rose Smith skoraði úr. Dómari leiksins dæmdi hættuspark á Hildi Maríu Jónasdóttur á Edith Kristínu Kristjánsdóttur og skoraði Samantha örugglega úr spyrnunni.
Kristín Dís Árnadóttir bætti við öðru með þrumuskoti í samskeytin hægra megin um það bil tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan 2-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Blikar heilt yfir mun betri og staðan sanngjörn, en Fram komst óvænt inn í leikinn snemma í þeim síðari er Lily Anna Farkas minnkaði muninn.
Von Framara dó nokkrum mínútum síðar er Birta Georgsdóttir skoraði tvö mörk á mínútu. Óskiljanlegur varnarleikur hjá Dominiqe Evangeline Bond-Flasza, sem reyndi að sóla Birtu úr vörninni, en missti hann og skoraði Birta. Dominiqe horfði síðan á eftir Birtu hlaupa fram hjá sér í seinna markinu og Framarar í vondri stöðu.
Þetta var ekki leikurinn hennar Dominiqe sem gerði önnur mistök í fjórða markinu þar sem hún var aftur gripin við að horfa í stað þess að verjast Edith sem skoraði annað mark sitt.
Líf Joostdóttir van Bemmel gerði endanlega út um leikinn á lokamínútunum og þar við sat. Blikar með 34 stig á toppnum, en Framarar niður í 7. sætið með 15 stig.
Öruggt hjá Stjörnunni
Stjörnukonur unnu öruggan 3-0 sigur á Tindastóli á Samsung-vellinum í Garðabæ.
Liðin skiptust á færum í fyrri hálfleik. Andrea Mist Pálsdóttir átti skot yfir mark Tindastóls og nokkrum mínútum síðar setti Makala Woods boltann í utanverðu stöngina hjá Stjörnunni.
Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir var nálægt því að skora fyrir Stjörnuna á 25. mínútu en Genevieve Jae Crenshaw, markvörður Tindastóls, varði frábærlega.
Staðan í hálfleik markalaus en í þeim síðari gengu Stjörnukonur frá leiknum.
Ingibjörg tók forystuna fyrir heimakonur á 59. mínútu er Gyða Kristín Gunnarsdóttir lagði boltann inn á Ingibjörgu sem skoraði með föstu skoti og bætti Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir við öðru eftir undirbúning frá Andreu.
Jana Sól Valdimarsdóttir gerði þriðja og síðasta markið undir lok leiks. Hulda Hrund Arnarsdóttir gerði frábærlega í undirbúningnum, fór framhjá tveimur leikmönnum Tindastóls, kom boltanum á Jönu sem rak síðasta naglann í kistu gestanna.
Stjarnan fer upp í 6. sæti með 15 stig, en Tindastóll er í 8. sæti með 13 stig.
Ragnheiður hetja Vals
Valur sótti góðan 2-1 útisigur gegn Þór/KA í Boganum.
Skotin voru á báða boga í fyrri hálfleiknum og eina sem vantaði var mörk en þau létu ekki sjá sig fyrr en í síðari hálfleiknum og var það Jordyn Rhodes sem skoraði það fyrir Val þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.
Varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir með fyrirgjöfina sem Rhodes stýrði í fjærhornið.
Forysta Vals varði ekki lengi því nokkrum mínútum síðar fengu heimakonur vítaspyrnu er Málfríður Anna Eiríksdóttir handlék boltann í eigin teig og var það fyrirliðinn Sandra María Jessen sem skoraði og jafnaði leikinn.
Þremur mínútum síðar var önnur vítaspyrna dæmd og í þetta sinn í teig Þórs/KA. Margrét Árnadóttir var dæmt brotleg fyrir að fá boltann í höndina og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sem skoraði sigurmark Vals.
Umdeild vítaspyrna en Valur kvartar ekki yfir því og tekur þessi þrjú stig með sér aftur heim til Reykjavíkur. Valur er í 5. sæti með 18 stig en Þór(KA í 4. sæti með jafnmörg stig en betri markatölu.
Fram 1 - 6 Breiðablik
0-1 Samantha Rose Smith ('9 , víti)
0-2 Kristín Dís Árnadóttir ('35 )
1-2 Lily Anna Farkas ('48 )
1-3 Birta Georgsdóttir ('53 )
1-4 Birta Georgsdóttir ('54 )
1-5 Edith Kristín Kristjánsdóttir ('59 )
1-6 Líf Joostdóttir van Bemmel ('90 )
Lestu um leikinn
Stjarnan 3 - 0 Tindastóll
1-0 Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir ('59 )
2-0 Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir ('75 )
3-0 Jana Sól Valdimarsdóttir ('90 )
Lestu um leikinn
Þór/KA 1 - 2 Valur
0-1 Jordyn Rhodes ('71 )
1-1 Sandra María Jessen ('78 )
1-2 Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir ('83 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 13 | 11 | 1 | 1 | 52 - 9 | +43 | 34 |
2. FH | 11 | 8 | 1 | 2 | 26 - 12 | +14 | 25 |
3. Þróttur R. | 11 | 8 | 1 | 2 | 24 - 11 | +13 | 25 |
4. Þór/KA | 12 | 6 | 0 | 6 | 20 - 20 | 0 | 18 |
5. Valur | 13 | 5 | 3 | 5 | 16 - 19 | -3 | 18 |
6. Stjarnan | 12 | 5 | 0 | 7 | 15 - 24 | -9 | 15 |
7. Fram | 12 | 5 | 0 | 7 | 16 - 30 | -14 | 15 |
8. Tindastóll | 12 | 4 | 1 | 7 | 17 - 23 | -6 | 13 |
9. Víkingur R. | 11 | 3 | 1 | 7 | 18 - 27 | -9 | 10 |
10. FHL | 11 | 0 | 0 | 11 | 5 - 34 | -29 | 0 |
Athugasemdir