Man Utd hefur áhuga á að fá Baleba frá Brighton - Everton í viðræðum um Grealish - Newcastle vill McGinn
   fim 07. ágúst 2025 19:59
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Blikar í fínum málum eftir jafntefli í Bosníu
Tobias Thomsen skoraði mark Blika
Tobias Thomsen skoraði mark Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Zrinjski Mostar 1 - 1 Breiðablik
0-0 Tobias Bendix Thomsen ('17 , misnotað víti)
0-1 Tobias Bendix Thomsen ('18 )
1-1 Nemanja Bilbija ('72 , víti)
Lestu um leikinn

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru í þokkalegum málum í forkeppni Evrópudeildarinnar eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Zrinjski Mostar í fyrri leik liðanna í Bosníu í 3. umferð keppninnar í kvöld.

Blikar fengu draumabyrjun. Ilija Masic. varnarmaður Mostar, slengdi olnboganum í andlit danska framherjans Tobias Thomsen í vítateignum á 14. mínútu leiksins og vítaspyrna dæmd.

Goran Karacic, markvörður Mostar, varði vítaspyrnuna frá Höskuldi Gunnlaugssyni, fyrirliða Blika, sem fengu annan séns þar sem Karacic steig af línunni.

Thomsen var sendur á punktinn í annarri tilraun Blika en aftur varði Karacic, þó ekki lengra en aftur út á Thomsen sem hirti frákastið en aftur varði Karacic áður en Thomsen náði að skalla boltann í netið. Svakalega atburðarás og heppnin með Blikum.

Heimamenn náðu lítið að ógna í fyrri hálfleiknum og var spil þeirra fremur fyrirsjáanlegt og Blikar með öll svör við tilraunum þeirra.

Í síðari hálfleiknum voru Mostar-menn nálægt því að jafna metin er Mateo Susic kom boltanum á Tomislav Kis, en Anton Ari Einarsson, sem hafði lítið að gera í markinu fram að þessu skoti, varði það frábærlega.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok klikkuðu Blikar í varnarleiknum er Ágúst Orri Þorsteinsson hálfpartinn datt á leikmann Mostar og benti dómarinn á punktinn. Nemanja Bilbija skoraði úr vítinu og staðan jöfn.

Blikum tókst að halda vel eftir markið og geta verið sáttir með að taka 1-1 jafntefli heim í Kópavoginn. Vítaspyrnan var algerlega óþarfi en fyrirfram hefðu Blikar alltaf tekið þessi úrslit.

Breiðablik tekur á móti Mostar á Kópavogsvelli eftir viku og mun sigurvegarinn mæta annað hvort Utrecht eða Servette í umspili um sæti í deildarkeppnina.
Athugasemdir
banner